Kynslóðabrúin prjónuð
Prjónatorg Samkaupa var opnað formlega í dag og af því tilefni var fulltrúum ungu kynslóðarinnar og fulltrúum eldri borgara gefin tvö kíló af prjónagarni, en garnið verður notað til að prjóna kynslóðabrúna. Skúli Skúlason starfsmannastjóri Samkaupa afhenti prjónakörfurnar og sagði við það tilefni að það væri ánægjulegt fyrir Samkaup að tengja ungt fólk saman við eldra fólk með prjónaskap. Skúli sagði tilefni þessarra gjafa að þema ársins í starfi eldri borgara hjá Reykjanesbæ væri að tengja saman kynslóðirnar. Skúli nefndi að samskonar verkefni væri til meðal félagsmiðstöðva á höfuðborgarsvæðinu sem kallast Vinaormurinn, en það verkefni gengur út á að hópur ungmenna kemur reglulega saman til að prjóna vinaorm þar sem markmiðið sé að vinna að einhverju saman og gefa sköpunargáfunni lausan tauminn. Skúli sagði einnig að með þessu framtaki Samkaupa væri verslunin að leggja lið sitt við forvarnarmál á Suðurnesjum. Að sögn Hafþórs Barða Björgvinssonar forstöðumanns félagsmiðstöðvarinnar Fjörheima verður kynslóðabrúin prjónuð í Selinu, félagsheimili eldri borgara frá klukkan 16 til 18 á þriðjudögum. Hafþór hvatti alla sem áhuga hefðu til að fjölmenna í Selið og taka þátt í prjónamennsku.
VF-ljósmynd/JKK: Skúli Skúlason afhenti fulltrúum eldri og yngri kynslóðarinnar tvær körfur sem innihalda tvö kílí af prjónagarni sem notað verður til að prjóna kynslóðabrúna.