Kvennakraftur í hjarta bæjarins
Það er engin lognmolla í kringum þessar hressu konur, sem tóku sig saman og bjóða gestum Ljósanætur upp á skemmtilega upplifun á hótelinu Park Inn By Radisson að Hafnargötu 57 í Keflavík.
Þær eru mjög öflugar, hver á sínu sviði. Sjö konur talsins en fjórar þeirra ætla að sýna málverk, ein þeirra skapar skart, önnur býr til gæðakerti og sú sjöunda í röðinni sinnir ritlist.
Þær eru allar sammála um það að Ljósanótt sé frábær vettvangur fyrir listafólk til að koma úr felum. Ljósanótt hefur frá upphafi gefið bæði óþekktu og þekktu listafólki tækifæri til að kynna sig betur. Þær eru að vísu flestar búnar að sýna áður á Ljósanótt og segja þessa hátíð vera sannkallaða gleðihátíð.
Allar eru þær vel þekktar fyrir sköpunarverk sín. Nú þykir þeim mjög spennandi að taka þátt sameinaðar undir einu þaki í miðbænum.
Sjö konur, hverjar eru þær?
Dagmar Róbertsdóttir vinnur með akrýl og blandaða tækni. Einfaldleiki og litagleði skipa stóran sess í hennar verkum. Dalla er þekktust fyrir frauðkúlufígururnar sínar. Fjölbreytni finnst henni skemmtilegust í myndlistinni, sem hún mun sýna núna. Myndlist veitir henni hugarró.
Fjóla Jóns segist mála myndir til að fá gleðina fram í þeim sem horfa. Fyndnar fígúrur hafa verið fyrirferðarmiklar hjá henni en nú segist hún vera að þróast yfir í abstrakt. Húmorinn svífur enn yfir vötnum. Henni þykir gaman að fá áhorfendur til að spá og spekúlera í abstraktmyndum sínum.
Íris Rós vinnur mikið með fígúratív verk og abstrakt í bland. Hún vinnur með blandaða tækni í leir, tré og striga. Stutt er í gleðina í verkum hennar og þörfin til að skapa er stór þáttur í lífi hennar.
María Arnardóttir hefur undanfarin þrettán ár notað hekl við sköpun sína á skartgripum undir nafninu Maju Men. Hekl hefur ávallt verið í miklu uppáhaldi hjá henni og einnig reynst henni sem þerapía í gegnum ævina. Í dag vinnur Maja meðal annars með náttúrusteina, glerperlur, kristalla og fleira í sköpun sinni.
Marta Eiríksdóttir, rithöfundur og jógakennari, ætlar að kynna tvær nýjar bækur sem hún gefur út á þessu ári. Fyrri bókin kom út í byrjun maí en sú seinni kemur út á Ljósanótt. Marta segir rithöfundinn í sér vera að taka meira pláss og nú vilji hún sinna meira ritlistinni ásamt jógakennslu.
Sigga Dís segist skapa sínar myndir af þörf en þær konurnar segjast allar sammála henni þar. Það er þessi þörf að skapa og svara kallinu frá hjartanu. Sigga Dís segist vera í algjörri núvitund þegar hún málar og það gefur henni mjög mikið. Hún segist einnig vinna með blandaða tækni og mála aðallega konur og engla.
Sigrún Ýr Hjörleifsdóttir stofnaði byKrummi haustið 2021 ásamt móðursystur sinni. Þær útbjuggu fyrst kertaföndurkassa sem innihélt allt sem þarf til kertagerðar og seldu almenningi. Svo fór fólk að vilja kaupa tilbúin kerti af þeim. Í dag framleiða þær einnig hrein, hágæða ilmkerti úr bestu fáanlegu hráefnum til kertagerðar.
Ljósanótt er gleðisprengja!
Þær eru allar sammála um að Ljósanótt sé gleðihátíð ársins fyrir bæjarbúa og brottflutta. Það er svo gaman að hitta gamla vini þessa helgi og gamla bekkjarfélaga. Árgangagangan niður Hafnargötuna er stórskemmtileg upplifun á laugardeginum.
Þær sem hafa reynslu af því að sýna á Ljósanótt segja þessa daga vera algjöra gleðisprengju. Allir svo glaðir og líka bara svo gaman að hitta alls konar fólk. Fyrir listamenn bæjarins er þetta einskonar uppskeruhátíð.
Þær hlakka allar mikið til að vinna saman á Ljósanótt og ætla að taka sérlega vel á móti gestum og gangandi. „Þetta verður sko stuð,“ segja þær og eru roknar burt að ákveða hvernig þær ætla að stilla upp í salnum sem þær fá til afnota á Ljósanótt, sem er með inngangi beint frá Hafnargötu.