Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kvennakór Suðurnesja er kominn í jólaskap
Mánudagur 21. nóvember 2011 kl. 08:55

Kvennakór Suðurnesja er kominn í jólaskap

Að venju er nóg að gera hjá Kvennakór Suðurnesja. Kórinn hélt skemmtikvöld laugardaginn 29. október og fékk þá Karlakór Keflavíkur í heimsókn. Þetta var frábær skemmtun sem hófst á því að kórfélagar ásamt mökum gæddu sér á dýrindis kvöldverði sem kvennakórskonur reiddu fram. Að því loknu voru ýmis skemmtiatriði þar sem kórarnir sungu nokkur lög hvor um sig og auðvitað sungu líka allir saman. Farið var með gamanmál, farið í leiki og að lokum skelltu gestir sér á dansgólfið og tóku sporið. Skemmtunin tókst í alla staði mjög vel en þetta var einnig fjáröflun fyrir Kvennakór Suðurnesja sem er að safna í ferðasjóð vegna fyrirhugaðs söngferðalags.

Kórkonur eru komnar í jólaskap enda löngu byrjaðar að æfa jólalögin fyrir aðventutónleika kórsins sem verða haldnir mánudaginn 5. desember og miðvikudaginn 7. desember. Á tónleikunum verða fluttar margar jólaperlur, þar á meðal jólalag RÚV árið 2010, „Þeir hringdu hljómþungum klukkum„ eftir Suðurnesjatónskáldið Sigurð Sævarsson. Tónleikarnir verða nánar kynntir síðar.

Fastur liður í undirbúningi aðventunnar hjá Kvennakór Suðurnesja er laufabrauðsgerðin. Um næstu helgi ætla kórkonur að hittast ásamt fjölskyldum sínum og skera út og steikja 1500 laufabrauð, en þetta er ein stærsta fjáröflun kórsins. Laufabrauð kvennakórsins hefur verið mjög vinsælt og því um að gera fyrir þá sem hafa áhuga á að ná sér í laufabrauð að hafa samband við kórkonur. Hægt er að panta laufabrauð á netfanginu [email protected].

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024