Kvenkokkur á sjónum
Hóf kokkaferilinn á því að elda fyrir Tom Cruise | Fer í nýjan kjól á hverjum degi á sjónum
Erla Ásmundsdóttir er líklega nafn sem allir kveikja ekki á einn, tveir og þrír en flestir vita hver karl faðir hennar er, alþingismaðurinn Ásmundur Friðriksson. Þar sem sjómannahelgin er framundan, ákvað blaðamaður Víkurfrétta að reyna hafa uppi á konu frá Suðurnesjunum sem starfar sem sjómaður og kom nafn Erlu fljótt upp. Hún er kokkur á ísfisktogaranum Helgu Maríu RE sem Brim gerir út.
Erla fór yfir æskuna. „Ég er fædd árið 1984, ólst upp í Vestmannaeyjum þar til ég varð 22 ára gömul en þá flutti ég til mömmu og pabba í Garðinn en pabbi var bæjarstjóri þar á árunum 2009 til 2012 og við fluttum svo í Keflavík. Árin í Vestmannaeyjum voru skemmtileg, ég kláraði auðvitað grunnskólann og fór svo með hálfum huga í framhaldsskólann þar, fann mig ekki og var fljótlega búin að kaupa mér íbúð með þáverandi kærastanum mínum. Ég var í raun orðin fimmtug þegar ég var nítján ára gömul en svo flosnaði upp úr því sambandi og þá flutti ég upp á land til foreldranna. Ég fór fyrst að vinna uppi í flugstöð en sótti svo um í háskólabrúna í Keili og var í fyrsta útskriftarárgangi Keilis árið 2008. Fór eftir það í Kennaraháskólann, var í tvö og hálft ár en bauðst þá kennarastaða í Garðinum og var þar í rúm tvö ár. Tók svo eitt ár í Vatnsendaskóla í Kópavogi en fann þá að kennarastarfið heillaði mig ekki.“
Kokkur í kvikmyndaverkefnum
Óvænt bauðst Erlu atvinnutækifæri. Henni bauðst að kokka í kvikmyndaverkefnum. „Ég hafði engan grunn sem slíkan en naut þess að báðir foreldrar mínir eru miklir kokkar og finnst gaman að henda upp veislum fyrir margt fólk, ég var mikið í kringum þau og lærði af þeim. Ég viðurkenni samt fúslega að fyrstu skrefin í þessari eldamennsku fyrir Tom Cruise og 40 aðra karlmenn, sem voru að vinna við myndina Oblivion í Veiðivötnum í sex vikur, voru ansi erfið. Mér var skaffaður Sprinter sendiferðabíll, sagt að kaupa frystikistu, kæliskáp og mat og svo var bara ekið af stað eftir GPS-hniti því þetta var fyrir tíma Google maps. Ég vissi ekkert hvert ég var að fara en komst auðvitað á leiðarenda. Fyrstu dagarnir í eldamennskunni voru erfiðir, ég var í stöðugu símasambandi við mömmu, vissi ekki hvernig ég ætti að þykkja sósuna eða hversu lengi ég ætti að elda kjúklinginn.“
Erla komst fljótlega upp á lagið, kláraði þennan fyrsta túr með glæsibrag og vann við þetta næstu sjö árin. Þessi verkefni voru í gegnum veitingastaðinn Laugás, Erla vann þar á milli þess sem kvikmyndaverkefni voru í gangi og gat lært af matreiðslumeisturunum á Laugási.
„Ég lærði mikið af Gumma Ragnars á Laugarási og Sigga Gísla á Gott í Vestmannaeyjum, þeir kenndu mér það sem ég kann en mamma kenndi mér auðvitað grunninn þessar fyrstu sex vikur í Veiðivötnum.
Ég fór síðan úr því að elda mat, í að selja mat, vann hjá Garra í fjögur ár en fór svo aftur til Vestmannaeyja og gerðist leiðsögumaður hjá Rib safari síðasta sumar. Frábær tími en þá kom annað óvænt atvinnutækifæri,“ segir Erla.
Sjókokkur sem finnur lítið fyrir sjóveiki
Erla fékk tækifæri á að leysa af sem sjókokkur og hefur ílengst. „Ég fékk símhringingu í júlí, bauðst að leysa af sem kokkur á ísfisktogaranum Helgu Maríu RE sem Brim gerir út. Ég fékk leyfi hjá frábærum eigendum Rib safari og dreif mig í þennan túr í júlí. Sem betur fer var rennisléttur sjór allan tímann svo ég fann ekki fyrir sjóveiki, ég kunni mjög vel við mig og þegar mér bauðst föst staða síðastliðið haust, ákvað ég að slá til. Eftir að hafa eldað fyrir nokkur hundruð manns við hinar og þessar aðstæður í kvikmyndaverkefnunum, er vinnan sem slík, að elda fyrir fimmtán manna áhöfn, ekki erfið. Eldunaraðstaðan er mjög góð en hins vegar getur vinnan verið mjög erfið þegar aðstæður eru erfiðar, vond veður og mikil hreyfing á skipinu. Við það bætist fjarvera frá heimili, maður skýst ekkert út í búð eftir einhverju svo það er margt sem gerir þessa vinnu krefjandi og erfiða myndi ég segja, sérstaklega veðrið. Sem betur fer hef ég nánast sloppið við sjóveiki, ef ég fer út á sjó í brælu eftir frí, finn ég að ég er ekki alveg eins og ég á að mér að vera en er þó aldrei þannig veik að ég æli eins og múkki. Ég gúglaði sjóveiki um daginn og það kom mér á óvart hvað hún getur birst í mörgum myndum, hún snýst ekki bara um að vera flökurt og æla. Maður getur fengið hausverk, ofsaþreytu og brjóstsviða svo dæmi séu tekin. Þegar ég fer út í brælu, er það kannski helst þreyta sem ég finn fyrir og þá er þægilegt að geta stjórnað sér sjálfur, þá get ég leyft mér að þrífa ekki eins mikið á fyrsta degi og læt það bíða til næsta dags. Ég er venjulega fljót að ná mér alveg.“
Saltfiskur í hádegi á laugardegi, steik á sunnudagskvöldi
Erla fær að fara sínar eigin leiðir í eldamennskunni um borð í Helgu Maríu en þarf þó að halda sumar hefðir í heiðri. „Mér var strax sagt að það væri regla að hafa saltfisk og grjónagraut í hádeginu á laugardögum, einhvern skyndibita eins og pizzu, hamborgara eða Taco þá um kvöldið og flotta steik á sunnudagskvöldinu. Strákarnir vilja engar aðrar fastar reglur með hina og þessa máltíðina, vilja frekar láta mig koma sér á óvart. Þeir vilja borða mikinn fisk, ég elda hann fimm til sjö sinnum í viku, oftast í hádeginu og það er helst þorskur sem ég býð upp á. Stundum elda ég ýsu og strákunum finnst mjög gott þegar ég djúpsteiki karfa, hann er algert lostæti. Í síðasta túr eldaði ég blálöngu og það lukkaðist mjög vel en yfir höfuð legg ég áherslu á að vera með fjölbreyttan mat. Oft er sagt að kokkurinn um borð í skipum sé eins og sálfræðingur, menn þurfa að fá góðan og hollan mat en þetta mega ekki eingöngu vera einhverjar flugeldasýningar, menn vilja bara fá bragðgóðan heimilismat í miðri viku.“
Í kjólnum í eldhúsinu um borð
Erla hefur fundið fjölina sína í bili en veit ekki hversu lengi hún muni stunda sjókokkastarfið. „Ég kann mjög vel við þetta starf en það er pínu skrýtið að hugsa til þess að ég verð fertug á næsta ári og ætla ég að enda starfsferilinn til 67 ára, sem kokkur á sjó? Ég veit það ekki en akkúrat núna kann ég mjög vel við mig, góðar tekjur og fín frí inn á milli. Andinn um borð er mjög góður, annars myndi ég ekki höndla þetta, strákarnir eru mjög góðir við mig og góðir við hvorn annan.“
Gaman frá því að segja í lokin að Erla er alger kjólakerling, elskar að klæða sig upp í kjól og á mjög marga. Undanfarin ár hefur hún verið í gjörningi sem hún kallar „í kjólum fram að jólum.“
„Ég á afmæli 25. nóvember og fer í nýjan kjól á hverjum degi fram að aðfangadegi. Ég ákvað að ég myndi ekki hætta þessu þó svo að ég væri búin að gerast togarasjómaður. Hann var fyndinn svipurinn á strákunum þegar ég mætti með átján kjóla á herðatrjám í túrinn í nóvember. Strákarnir mættu spenntir hvern einasta morgun til að sjá í hvernig kjól ég væri, ég lét taka myndir af mér niðri í lest í síðkjól, uppi í skipstjórastólnum og svo framvegis. Ekki nóg með að þeir væru hrifnir af þessu uppátæki, mér tókst að klæða þá nokkra upp í kjól. Upp frá þessum kjóla-gerningi mínum fæddist „Fanzy Friday“ en þá klæði ég mig alltaf upp á föstudögum, sama hvort ég er í landi eða á sjó, þetta lífgar upp á andann um borð, ekki spurning,“ sagði þessi hressa kona, sjókokkurinn að lokum.