Kvenfélag Grindavíkur frestar útdrætti í happdrætti
– Flestir vinningarnir fastir í húsakynnum félagsins í Grindavík
„Flestir vinningarnir eru fastir á skrifstofu okkar í Grindavík og við höfum ekki mátt fara þangað,“ segir Sólveig Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Grindavíkur sem fagnaði 100 ára afmæli sínu á síðasta ári.
Búið var að undirbúa glæsilega afmælisveislu í íþróttahúsi Grindavíkur þegar móðir náttúra gerði þær fyrirætlanir að engu en í staðinn bauð forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, til móttöku að Bessastöðum. Kvenfélagskonur létu samt náttúruhamfarirnar ekki stöðva sig í að gefa út glæsilegt afmælisblað sem í leiðinni er happdrættismiði. Draga átti í happdrættinu 1. febrúar en vegna aðstæðna í Grindavík var verið ákveðið að fresta drættinum og gefa fleirum kost á að kaupa blaðið og taka þannig þátt í happdrættinu.
Sólveig er ánægð með afmælisblaðið. „Við erum mjög stoltar af afmælisblaðinu okkar en þar er bæði farið ítarlega yfir síðustu 30 ár í sögu félagsins en síðast gaf kvenfélagið út afmælisblað þegar það var 70 ára. Því er einnig farið yfir söguna frá upphafi og má segja að ýmissa grasa kenni í efnistökunum, skemmtilegt lesefni, viðtöl við margar kvenfélagskonur, ferðasögur og uppskriftir úr kvenfélagseldhúsinu svo eitthvað sé nefnt. Síðast en ekki síst er blaðið líka happdrættismiði. Við ætluðum að draga á degi kvenfélagskonunnar, 1. febrúar, en þurftum að fresta úrdrættinum vegna mjög erfiðra aðstæðna í Grindavík. Mikið af vinningunum eru t.d. fastir á skrifstofu okkar í Grindavík, við höfum ekki getað komist heim til að sækja þá og því var þessi ákvörðun tekin. Ég vil hvetja alla til að kaupa blaðið, allur ágóðinn rennur í gott málefni en nú þegar höfum við stutt við bakið á þeim sem minnst mega sín. Það eru erfiðir tímar framundan hjá mörgum og við kvenfélagskonur viljum styðja við bakið á sem flestum en til þess þurfum við stuðning almennings. Hægt er að kaupa blaðið á Facebook-síðu Kvenfélags Grindavíkur eða hafa samband við mig eða aðrar konur í félaginu. Blaðið kostar fjögur þúsund krónur,“ sagði Sólveig að lokum.