Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kveikt á ljósum á trénu frá vinabænum Kristiansand í Noregi
Mánudagur 5. desember 2011 kl. 12:20

Kveikt á ljósum á trénu frá vinabænum Kristiansand í Noregi

Jólaljósin á jólatrénu frá Kristiansand í Noregi voru tendruð í Reykjanesbæ sl. laugardag í köldu en fallegu veðri. Dagskráin var hefðbundin með tónlist og söng en það var Catarina Chainho da Costa nemandi úr Myllubakkaskóla sem tendraði jólaljósin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Áður en ljósin voru tendruð flutti Magnea Guðmundsdóttir, varaforseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar ávarp sem er hér meðfylgjandi:

„Jólin – hátíð ljóss og friðar - nálgast óðum. Aðventan er fallegur tími sem einkennist af samkennd og notalegum samverustundum með fjölskyldu og vinum.
Hátíð ljóss og friðar á vel við þennan viðburð hér í dag þar sem við erum samankomin til að taka á móti jólatrénu sem er gjöf íbúa í vinabæ okkar Kristiansand til okkar hér í Reykjanesbæ.
Í rétt tæplega hálfa öld hefur vinabæjartréið sett svip sinn á bæinn okkar en þetta er í 49 sinn sem við tendrum ljósin og tökum á móti jólatrénu frá vinum okkar í Noregi.
Íbúar Reykjanesbæjar senda íbúum Kristiansand bestu þakkir og þakklæti fyrir gjöfina og það vinarþel sem hún táknar.
Við sem búum hér í Reykjanesbæ erum dugleg að lýsa upp umhverfi okkar og gera fallegan bæ enn fegri og hátíðlegri fyrir vikið.
Segja má að lýsing umhverfisins hefjist með Ljósanótt fyrstu helgina í september og ljóst er að Ljósabærinn ber nafn með rentu.
Heimili okkar færast í hátíðabúning, verslanir setja fallegan svip á bæinn með jólaskreytingum í gluggum og starfsmenn þjónustumiðstöðvar Reykjanesbæjar hafa sett upp fallegar ljósaskreytingar víðsvegar um bæinn sem gleðja okkur öll og lýsa upp skammdegið.
Í næstu viku munum við velja jólaglugga og jólahús ársins.
Lýsing bæjarfélagsins okkar er táknræn fyrir kraft, hugmyndaauðgi og þann anda sem býr í öllum íbúum Reykjanesbæjar.
Við horfum nú bjartsýn fram á veginn og hugum vel að þeim sem eru í kringum okkur og mætum jólunum með birtu í hjarta“.

Eftir að kveikt var á trénu komu jólasveinar í heimsókn á gamalli slökkviliðsbifreið. Meðfylgjandi myndir voru teknar við þetta tækifæri en einnig eru fleiri myndir í ljósmyndasafni Víkurfrétta hér á vf.is





VF-myndir: Hilmar Bragi