Kútmagi og loðna með Jóa Sandara og Bríet Sunnu
Mannlífið iðaði í Reykjanesbæ um síðustu helgi en einn elsti félagsskapur bæjarins, Lionsklúbbur Keflavíkur, hélt þá sitt árlega kútmagakvöld.
Lionsfélagar og vinir þeirra fjölmenntu og skemmtu sér vel og borðuðu góðan mat. Jóhannes Kristjánsson, eftirherma og skemmtikraftur var aðal gestur kvöldsins og fór á kostum en það gerði líka Bríet Sunna, Idol söngkona frá Suðurnesjum.
Hafsteinn Guðnason, einn lionsfélaga er skólastjóri kútmagaskóla klúbbsins en hann hefur undanfarin ár stýrt kútmagagerðinni með aðstoð fleiri lionsfélaga. Þetta var fertugasta kútmagakvöldið hjá klúbbnum en það er ein helsta fjáröflun hans. Fréttamaður VF var í hópnum og tók meðfylgjandi myndir en það má sjá fleiri í ljósmyndagalleríi vf.is með því að smella hér.
Á efstu myndinni er Hafsteinn Guðnason, skólastjóri Kútmagaskóla LK að næla sér í kútmaga á diskinn. Hér fyrir ofan má sjá fleiri gesti við hið glæsilega sjávarréttahlaðborð.
Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri og veislustjóri kvöldsins með skemmtikraftinum Jóhannesi Kristjánssyni eða Jóa Sandara eins og Suðurnesjamenn þekkja hann.
„Þú veist að loðna er líka mannamatur á Íslandi,“ sagði Þorsteinn Erlingsson, loðnuverkandi við Kristján Jónsson, fyrrverandi kennara í Myllubakkaskóla.
Bríet Sunna söng nokkur lög fyrir lionsfélaga.
VF-myndir/pket.