Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Krúttleg kríli í morgunstund í Garði
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 22. mars 2020 kl. 07:03

Krúttleg kríli í morgunstund í Garði

Það var notaleg stemning í Kiwanishúsinu í Garði á foreldramorgni. Kristjana Kjartansdóttir heldur utan um þessa morgna sem fara fram á miðvikudögum í hverri viku á vegum Útskálakirkju en hún hefur lengi verið viðloðandi barnastarf á vegum kirkjunnar.

Hríðarbylur var úti en það aftraði ekki mæðrum og einni ömmu að mæta með litlu börnin, enda var gestur væntanlegur úr Reykjavík með upplifun sem kallast Krílasálmar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Foreldramorgnar hefjast klukkan 10:30 og eru til hádegis. Þarna mæta foreldrar, mæður í fæðingarorlofi og stundum ömmur með litlu krílin.

Kaffiveitingar voru ekki af verri endanum þennan morgunn, allt heimabakað sem Sjana Kjartans sá um að útbúa. Allt er þetta frítt og allir velkomnir að vera með.

Gaman að vera með börnum

Það var líf og fjör þennan morgunn sem endranær, börnin sáu um það með einlægni sinni og forvitni um önnur börn. Krúttlegt að fylgjast með þeim uppgötva önnur börn.

„Barnastarfið byrjaði fyrir þrjátíu árum hér fyrir aldurshópinn níu til tólf ára en þar koma krakkarnir sjálfir einu sinni í viku. Það starf hefur ávallt verið öflugt og lifandi og endar með ferðalagi í Vatnaskóg á vorin. Það er svo gaman að vera í kringum börn. Ég hef haldið utan um þessa foreldramorgna fyrir þau yngstu og nýt þess að hlúa að þeim sem mæta. Góðar veitingar eru partur af því. Foreldramorgnar eru lifandi stund fyrir börn á forsendum þeirra, ef þau þurfa bleyju eða að drekka þá er það engin truflun,“ segja Sjana Kjartans.

Krakkarnir njóta sín vel

Séra Sigurður Grétar Sigurðsson var viðstaddur þennan foreldramorgun ásamt góðum gesti úr Háteigskirkju í Reykjavík, henni Guðnýju Einarsdóttur, sem sá um að kynna fyrir börnunum Krílasálma. Litlu börnin voru heilluð af Guðnýju sem náði einstaklega vel til þeirra með leik og söng. Séra Sigurður Grétar var hæstánægður með móttökur barnanna og sagðist vera búinn að panta aftur Krílasálma til þeirra miðvikudaginn 11. mars.

„Við erum með öflugt kirkjubarnastarf í Suðurnesjabæ, alveg frá þeim minnstu og upp í unglingahópa sem hittast reglulega yfir veturinn, í hverri viku. Þá erum við með gospelkór fyrir börn frá sjö ára aldri undir stjórn Keith Reed organista. Við erum einnig með NTT-hópa fyrir börn níu til tólf ára en það er bæði í Garði og Sandgerði og þá erum við að auki með unglingastarf. Þetta er lifandi og skemmtilegt starf þar sem krakkarnir njóta sín vel. Þau eru fjögur sem sjá um þessa fundi, að engum leiðist. Ferðalag í Vatnaskóg er alltaf mjög vinsælt hjá þátttakendum,“ segir séra Sigurður Grétar.

Geirdís Bára Oddsdóttir er móðir Ingu Jónu Björgvinsdóttur, sjö mánaða:

Hef eignast góðar vinkonur hér

„Við erum búnar að koma hingað síðan í haust, mætum hvern miðvikudag. Hérna er félagsskapur fyrir mig og hún fær að hitta aðra krakka. Ég hef eignast góðar vinkonur hér sem eru á svipuðu róli með lítil börn. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt, nógu skemmtilegt til að ég mæti hingað á hverjum miðvikudegi. Inga Jóna hefur gaman af þessu, ég sé þvílíkan mun á henni, sérstaklega hvað hún tekur meira eftir öllu. Ég vil hvetja fleiri sem eru heima að koma.“

Þuríður Helga Ingadóttir er móðir Benedikts Skúla Pálmasonar, 18 mánaða:

Vil sjá fleiri mæta

„Ég er nýlega flutt í Garðinn og byrjaði að koma hingað um áramót. Ég bjó áður í Reykjavík og fór þar á foreldramorgna. Hér er að mörgu leyti heimilislegra og ég tók sérstaklega eftir því hvað kaffiborðið er alltaf flott. Ég vil sjá fleiri mæta til okkar. Við hittumst og spjöllum, krakkarnir leika sér saman. Börnin hafa rosa gaman af því að hittast. Hér hef ég eignast vinkonur og við hittumst fyrir utan þessa morgna. Börnin ná vel saman þrátt fyrir aldursmun. Foreldramorgnar hafa hjálpað mér að tengjast samfélaginu betur. Ég myndi vilja hafa þennan hitting tvisvar í viku, þetta er svo gaman. Ég hef einnig farið á foreldramorgna í Keflavík og þeir eru líka mjög góðir.“