KRISTÍN FLUTTI Í KYRRÐINA
Það urðu straumhvörf í lífi Kristínar Sveinbjörnsdóttur árið 1994 en þá tók hún ákvörðun að flytja í litla sumarhúsið sitt í Biskupstungum. Hún hefur búið þar núna í tæp sex ár. Á þessum tíma hefur hún látið stækka húsið svo hún geti búið þar allt árið um kring.„Ég vann í Fríhöfninni og elskaði það starf. En hjónaskilnaður var í aðsigi. Fyrir mig var um tvennt að ræða; Að halda áfram að búa á Suðurnesjum, þar sem börn mín bjuggu, ásamt fjölskyldum sínum eða flytja í sveitina „mína”. Ég valdi seinni kostinn og sé svo sannarlega ekki eftir því. Fjölskylda mín kemur oft í heimsókn á sumrin, þó að vísu beri nú nokkuð á „unglingaveiki”, sem þýðir að það er ekkert flott að koma í sveit. Eina ósk á ég óuppfyllta. Að fá að hafa alla fjölskyldu mína hér á jólum.”Einveran heillaði„Þegar ég horfði á þátt sem Ómar Ragnarsson var með um konu, sem var einbúi á sveitabæ þá hreifst ég af hugmyndinni. Konan sagðist alltaf vera ein á aðfangadagskvöldi og hún skreytti með einu jólaskrauti. Með þessu jólaskrauti fylltist hún jólaanda. Þegar ég horfði á þennan þátt þá fann ég að ég gæti vel hugsað mér að búa svona. Það er dýrðlegt að fá að vera ein og hafa næði til að hugsa. Mér hefur alltaf fundist notalegt að vaka frameftir nóttu þegar allir eru sofandi. Í nóttinni fann ég þessa kyrrð, sem er svo dýrðleg tilfinning. Ekki öll þessi hlaup hingað og þangað og eilíft að keppast við tímann.”Skömmu eftir að Kristín flutti austur í sumarhúsið þá uppgötvast veikindi, sem hafa hrjáð hana síðan. Hún greindist með síþreytu. „Eftir að ég tók endanlega ákvörðun um að flytja, þá ákvað ég að slappa vel af fyrsta veturinn og vinna sem minnst. Ég réði mig í vinnu í gróðurhúsi bróður míns Helga og Björgu konu hans. Þau reka einnig dýragarðinn í Slakka í Laugarási. Mig langaði bara að „liggja í leti”. Fjárhagurinn leyfði að ég gat lifað einföldu lífi þennan fyrsta vetur. En svo fannst mér ég eitthvað svo orkulaus og bara löt. Ég gerði mér enga grein fyrir því að ég var orðin veik. Ég stefndi á að byrja að vinna á fullu um vorið. En það varð aldrei. Veikindin hömluðu gegn því og hafa síðan dregið mikið úr líkamsþrótti mínum.”Kristín býr ekki ein því með henni er hundurinn hennar Skuggi. Hann er mikill varðhundur og lætur hana vita ef einhver nálgast húsið. Þegar hún flutti fyrst austur og heimsótti bróður sinn og konu hans þá átti Skuggi heima hjá þeim. Þegar hún kvaddi þau og hélt heim á leið, þá fylgdi Skuggi henni eftir í bílinn og hefur ekki farið frá henni síðan. Enda dekrar Kristín við hann.Vinirnir höfðu áhyggjur „Ég uni mér alveg sérstaklega vel í sveitinni og mála silkimyndir og geri handavinnu. Svo hef ég gaman af því að fylgjast með litla skógarþrestinum, sem kemur alltaf og borðar af diskinum hans Skugga utandyra. Þegar fuglinn er búinn að borða þá kemur lítil hagamús og nartar í restina. Skuggi fær þá bara mat inni hjá mér.”Kristín hafði aldrei unnið í mold fyrr en hún eignaðist sumarhúsið sitt, árið 1986. Hún plantaði trjám hvar sem hún sá mold. Nú er að rísa upp stór skógur. Kristín segist eiga auðvelt með að breyta því sem hún getur breytt og sætta sig við breytingarnar.„Vinirnir héldu að ég væri að flýja eitthvað því ég vildi flytja hingað í sveitina. Þeir héldu að ég myndi grafa mig niður og sögðu mér að þetta væri bara þunglyndi í mér. En ég hef alltaf verið glaðvær og félagslynd og er það ennþá. Hérna er ég loksins ég sjálf. Náttúran hjálpar manni til að komast í gott samband við sjálfan sig. Þegar ég kem hingað heim eftir bæjarferð þá anda ég léttar og það er dýrðlegt. Það kemur ekki ein einasta stund sem mér leiðist. Leiðindi þekki ég ekki.”Hefur gaman af svo mörguStjórnmál og íþróttir (m.a.s. Formula 1 kappakstur!!) eru hennar ær og kýr. Hún segist horfa á þingfréttir á hverjum degi í sjónvarpinu og lætur aldrei fyrsta þingfund vetrarins fara framhjá sér. Henni finnst þetta svo gaman. Henni þykir einnig óskaplega gaman þegar börnin og barnabörnin koma í heimsókn.„Ég þekki margt yndislegt fólk á Suðurnesjum. Árin sem ég bjó á Suðurnesjum eru mér svo dýrmæt. Mér leið alveg sérlega vel á Suðurnesjum og eignaðist þvílíkan flokk af vinum og kunningjum. Fólkið í Fríhöfninni og í golfinu var alveg einstakt. Skemmtilegur félagsskapur.Það er líka alltaf sérstök tilfinning að fara niður í bæ á Þorláksmessu í Keflavík. Ég fer alltaf niður á Hafnargötu um hálfellefu leytið og kíki á mannlífið. Það er viss passi. Það setur mikinn svip á jólastemninguna. Annars hef ég aldrei prófað að vera ein á aðfangadagskvöld. Kannski á ég það eftir. Við Skuggi höfum tvisvar verið ein á gamlárskvöldi í sumarhúsinu og það var reglulega friðsælt,nema hvað Skuggi er ofsalega hræddur þegar flugeldar fara á loft. Þá hjúfrum við okkur hvort að öðru.”Kristín segist pæla meira í lífinu nú en áður og tíminn hreyfist hægar. Henni finnst gott að staldra aðeins við og njóta hverrar stundar. Sveitin er hennar staður.Að lokum vildi Kristín segja þetta:Öllum mínum elskulegu vinum, sérstaklega fríhafnarstarfsmönnum og golfurum sendi ég mínar einlægustu jóla og nýársóskir.