Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

KRÍA/KLETTUR/MÝ í Listasafni Reykjanesbæjar
Laugardagur 25. janúar 2014 kl. 17:57

KRÍA/KLETTUR/MÝ í Listasafni Reykjanesbæjar

Í dag, laugardaginn 25. janúar, var opnuð sýning á nýjum verkum Svövu Björnsdóttur, myndlistarmanns í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum, í Keflavík.

Svövu þarf vart að kynna; hún hefur um árabil verið meðal þeirra listamanna sem mest hafa lagt til endurnýjunar þrívíddarlistarinnar á landinu. Allt frá því hún sneri heim frá Þýskalandi við upphaf níunda áratugarins, eftir glæstan námsferil og margvíslegan framgang í München og víðar í Evrópu, hefur hún sent frá sér fjölda verka sem umbylt hafa viðteknum hugmyndum okkar um hlutverk og verkan þrívíddarmynda í nútíma umhverfi. Verkin hefur hún steypt úr lituðum pappírsmassa, sem hefur gert henni kleyft að nýta sýningarrými – og rými almennt – með nýjum hætti. Þannig virkjar Svava ekki einasta gólf og veggi, heldur einnig loft, skúmaskot og afkima sýningarrýmisins. Með markvissri sviðsetningu verka sinna gerir hún sérhvert rými að heildstæðri innsetningu með dramatísku ívafi.

Formgerð Svövu er sömuleiðis óvenjuleg. Verk hennar minna í senn á vélarhluta, form náttúrunnar og lifandi verur, og eru jafn fjölbreytileg að inntaki. Lögun og litróf verkanna skipta hana miklu máli, en einnig léttleiki þeirra, samspil og ljóðrænn slagkraftur.

Fyrir sýninguna í Listasafni Reykjanesbæjar setti Svava saman innsetningu sem hún nefnir KRÍA/KLETTUR/MÝ, og er tilraun til að skapa samnefnara fyrir ákveðna náttúruinnlifun. Og þó að þessi innlifun sé ekki bein endurspeglun aðstæðna hér í Keflavík, er eflaust margt í henni sem Suðurnesjabúar kannast við.

Myndir frá opnun sýningarinnar má skoða í myndasafni hér!

































Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024