Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kría í mestu makindum
Miðvikudagur 21. maí 2003 kl. 11:05

Kría í mestu makindum

Krían er sannkallaður heimshornaflakkari. Fyrstu kríurnar komu til Íslands þetta sumarið á fyrstu dögum aprílmánaðar og 10. apríl sást fyrsta krían á Suðurnesjum. Við fáum að njóta kríunnar í 3 til 4 mánuði á hverju ári en krían færir sig með árstíðunum, heimskautanna á milli, þannig að hjá henni er sífellt sumar. Hún ferðast 15 til 20 þúsund km hvora leið eða 30 til 40 þúsund km, en það jafngildir vegalengdinni umhverfis jörðina á hverju ári. Hún er meira og minna á ferðinni allt árið og er lengsta samfellda stopp hennar á einum stað líklega á varpstöðvunum, en þar dvelur hún þrjá til fjóra mánuði í senn. Á ferðum sínum nýtur hún þess, fram yfir flesta aðra farfugla, að vera aðlöguð að lífi á sjó og geta lent hvar sem er til að hvílast og jafnframt nærast á leiðinni. Íslensk kría náði því að verða rúmlega 21 árs gömul. Ef við gerum ráð fyrir að hún hafi flogið heimskautanna á milli ár hvert alla ævi þá hefur hún flogið a.m.k. 800 þúsund km á ferðum sínum. Það jafngildir flugi til tunglsins, heim aftur og gott betur.
Kríurnar eru nú í óða önn að undirbúa varp sitt og þegar þær fara að liggja á eggjum sínum verja þær egg sín með goggi og klóm. Þessi kría sem stóð í mestu makindum á steini út í tjörninni í Sandgerði um daginn hefur sjálfsagt verið orðin södd og líklega að leita að hentugum varpstað.

VF-ljósmynd: Jóhannes Kr. Kristjánsson

Byggt á upplýsingum af vef Náttúrufræðistofnunar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024