Kreppufréttir með kvöldmatnum
Fullorðnir halda stundum að unglingar lifi í eigin heimi þar sem lífið snýst um ipoda, tölvuleiki og „tjatt“ á msn-inu. Blaðamaður VF komst að því að þetta er mikill misskilningur eftir að hann settist niður eitt kvöldið með nokkrum 15 ára unglingum í Reykjanesbæ til að ræða um upplifun þeirra af kreppunni.
Í ljós kom að þau fylgjast vel með fréttum enda fá heimilin dag hvern „kreppufréttir með kvöldmatnum“, eins og einn viðmælandinn orðaði það. Þau eru vel meðvituð um það sem er að gerast í kringum þau og mynda sér skoðanir á því. Greinilegt er að ástandið er rætt inni á heimilinum og unglingarnir taka ábyrga afstöðu. Segjast t.d. ekki kvabba eins mikið í foreldrum sínum og áður um vasapeninga og bíóferðir. Þau gera sér grein fyrir að heimilisreksturinn krefst aðhalds og taka fullan þátt í því.
Og skilaboð þeirra til ráðamanna þjóðarinnar eru skýr: Þeim finnst ósanngjarnt að þeirra kynslóð og börnin þeirra þurfi að borga óráðsíu þeirra sem gerðu landið gjaldþrota. Þau eru engu að síður bjartsýn á framtíðina.
Viðtölin við unga fólkið verða birt í næsta tölublaði Víkurfrétta.
VFmynd/elg: Unglingaráðið í Fjörheimum. VF átti nokkur áhugaverð viðtöl við krakka úr hópnum og verða þau birt í næstu Víkurfréttum.