Kraftur í Karlakór Keflavíkur
Karlakór Keflavíkur hélt tvenna vortónleika í Ytri-Njarðvíkurkirkju í síðustu viku. Tónleikarnir voru mjög vel sóttir og með léttara yfirbragði en kórinn söng lög eftir yngri tónskáld á borð við Ásgeir Trausta, Braga Valdimar og Mugison í bland við klassísk eldri lög.
Í pistli formanns í söngskrá segir Jón Ragnarsson Gunnarsson að kórinn hafi verið mjög virkur í vetur og margir nýir félagar hafi bæst við og blásið nýju lífi í starf kórsins. Eitt af verkefnum vetrarins var að taka sal kórsins við Vesturbraut í gegn og voru kórfélagar duglegir í því verkefni. Eftir það er salurinn nú eins og nýr. Þá nefnir formaðurinn að Jóhann Smári Sævarsson, formaður klúbbsins, hafi boðið félögum upp á námskeið í söng sem margir hafi nýtt sér.
Jóhann Smári stýrði tónleikunum en undirleikur var í höndum sonar hans, Sævars Helga, en hann er fjölhæfur tónlistarmaður og hefur spilað með mörgum hljómsveitum.
Á tónleikunum sungu þeir Haraldur Arnbjörnsson og Kristján Þ. Guðjónsson einsöng, Ingólfur Ólafsson og Valgeir Þorláksson tóku dúett og Valgeir var svo með í tenóratríói ásamt þeim Jóni R. Gunnarssyni og Páli Bj. Hilmarssyni.
Páll Ketilsson kíkti inn á tónleikana og tók meðfylgjandi myndir í kirkjunni.