Kraftmiklir tónleikar Eldeyjarkórsins
Eldey, kór eldri borgara, hélt glæsilega vortónleika í Ytri-Njarðvíkurkirkju sl. föstudagskvöld. Aðrir tónleikar kórsins verða svo í Ísafjarðarkirkju 9. júní nk.Tónleikarnir voru með afbrigðum skemmtilegir. Var það mál manna að söngur kórsins væri kraftmikill og sönggleðin mikil, og það skilaði sér svo sannarlega á tónleikunum. Erfitt hefur verið að fá karla í kórinn en nú hefur orðið breyting á og karlahópurinn fer ört stækkandi. Drengirnir tóku sig saman á tónleikunum og heilluðu tónleikagesti uppúr skónum þegar þeir sungu Látum sönginn hvellan hljóma eftir Edvard Grieg og Ég vildi að ung ég væri rós eftir Sigfús Halldórsson. Konurnar slógust síðan í hópinn og tóku lagið með körlunum.Söngstjóri var Agota Joó og undirleikari Vilberg Viggóson. Kórfélagar vilja koma þökkum til styrktaraðila kórsins og öðrum velunnurum hans.