Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Kótilettur fyrir bæði dömur og herra
  • Kótilettur fyrir bæði dömur og herra
    Ólavía Margrét Óladóttir, sem fæddist í júní sl., fékk styrk upp á 150.000 krónur. Ólavía greindist með krabbamein í augum og hefur sótt sér lækningu í Svíþjóð. Skömmu áður fengu þær Helena og Emilía, langveikar dætur þeirra Chad Keilen og Rutar Þorsteinsdóttur, sömu fjárhæð úr söfnun Sigvalda. Þau eru á myndunum með þessari frétt.
Laugardagur 7. nóvember 2015 kl. 08:00

Kótilettur fyrir bæði dömur og herra

Skemmtikvöld Kótilettuklúbbs Suðurnesja föstudaginn 13. nóvember

„Skemmtikvöld Kótilettuklúbbs Suðurnesja er viðburður sem hefur þann tilgang að hittast, hafa gaman og borða vel af kótilettum og safna peningum fyrir brýn málefni barna á Suðurnesjum“. Þetta segir Sigvaldi Arnar Lárusson sem er í forsvari fyrir kótilettuklúbbinn.

Sigvaldi hefur verið duglegur að safna fjármunum fyrir börn á þessu ári. Sigvaldi komst fyrst í fréttirnar þegar hann gekk frá Keflavík til Hofsóss eftir að hafa verið full kokhraustur á fésbókinni í ársbyrjun. Gangan skilaði rúmum tveimur milljónum króna til Umhyggju, styrktarfélags langveikra barna. Eftir að formlegri söfnun lauk hafa fjölmargar krónur til viðbótar borist til Sigvalda með þeim óskum um að þeim verði varið til að styðja við börn á Suðurnesjum. Þannig fékk Ólavía Margrét Óladóttir, sem fæddist í júní sl., styrk upp á 150.000 krónur. Ólavía greindist með krabbamein í augum og hefur sótt sér lækningu í Svíþjóð. Skömmu áður fengu þær Helena og Emilía, langveikar dætur þeirra Chad Keilen og Rutar Þorsteinsdóttur, sömu fjárhæð úr söfnun Sigvalda.

Með kótilettukvöldi sem haldið verður í Officeraklúbbnum á Ásbrú föstudagskvöldið 13. nóvember nk. ætlar Sigvaldi að halda áfram að safna fé fyrir börn á Suðurnesjum. Til að gera kvöldið sem glæsilegast er verið að safna saman einvala liði sem kemur fram á kótilettukvöldinu. Nú liggur fyrir að Gísli Einarsson úr Landanum verður veislustjóri, Herbert Guðmundsson mætir með gítarinn og tekur alla slagarana. Þá munu koma nokkrir skemmtilegir aðilar og stíga á stokk um kvöldið. Einn þeirra er Gunnar á Völlum sem verður með gamanmál og þá ætlar Mummi Hermanns að flytja tónlist.

„Ég hef verið að fá mjög góð viðbrögð við þessari uppákomu. Til dæmis eru komnir vinningar fyrir hundruð þúsunda í happdrætti kvöldsins. Þetta kótilettukvöld er tilvalið fyrir vinahópa og vinnustaði að fjölmenna og borða eins mikið af kótilettum og þau geta. Það er misskilningur að þetta sé eitthvað herrakvöld. Það eru allir velkomnir en miðaverðið er 6000 krónur og innifalið er magafylli af kótilettum og tveir stórir svellkaldir og gulllitaðir,“ segir Sigvaldi og brosir.

Boðið verður upp á sætaferðir frá Hópferðum Sævars frá Offanum og í gegnum Reykjanesbæ kl 01:00. Allar nánari upplýsingar gefnar á netfanginu [email protected] eða í síma 854 0401.

Mynd: Göngugarpurinn Sigvaldi Arnar Lárusson er ekki hættur að safna fjármunum fyrir börn á Suðurnesjum. Nú er það kótilettukvöld föstudaginn 13. nóvember og ágóðinn fer allur í góð málefni tengd börnum sem þurfa aðstoð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024