Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kostur að enginn dagur er eins
Lilja Dögg ásamt samstarfsfólki sínu Guðmundi Axelssyni og Hrafnhildi Jónsdóttur.
Sunnudagur 2. nóvember 2014 kl. 09:00

Kostur að enginn dagur er eins

KPMG í Reykjanesbæ flutti á milli hæða í Krossmóa.

„Við þjónustum bæði stór og lítil fyrirtæki í endurskoðun, reikningsskilum og bókhaldi og launum og öllu sem því viðkemur. Svo höfum við aðgang að sérfræðingum í Reykjavík sem tengjast ráðgjafaþjónustunni sem býður upp á sem sérlausnir. Við erum í þessu almenna og höfum svo tengingu í það sem þarf,“ segir Lilja Dögg Karlsdóttir, endurskoðandi og í forsvari fyrir KPMG í Reykjanesbæ.
Frá því að KPMG sameinaðist Skrifstofuþjónustu Suðurnesja árið 2006 hefur það unnið mikið fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum, t.d. varðandi áætlanagerð og nú nýlega stóru skýrsluna sem varðar fjárhagsstöðu og rekstrarúttekt Reykjanesbæjar. „Einnig bjóðum við upp á verðmat á fyrirtækjum og sviðsmyndagreiningar sem eru það nýjasta hjá okkur. Þær tengjast áætlanagerð og settar eru upp mismunandi sviðsmyndir og áætlað út frá þeim. Ef þetta gerist - hvaða áhrif hefur það? Þá er fólk betur undirbúið fyrir hið óvænta.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lilja Dögg Karlsdóttir.

Hringja beint í gsm símana
Lilja Dögg segir að allur gangur sé á því í hvers konar rekstrarstöðu fyrirtæki eru sem leiti til KPMG. „Við erum meira að sinna smærri fyrirtækjum hér með bókhald og laun, ársreikningagerð og slíkt. Það sem kemur beint til okkar, þótt við hjálpum til með flest annað. Við höfum mjög mikla reynslu og þekkingu hérna og mörg fyrirtæki leita til okkar.“ Hún segir að yfirleitt standi fólk og fyrirtæki frammi fyrir sömu vandamálunum og þau fái aðstoð við að leysa þau. „Hér eru vinatengsl og minni fjarlægð við fólkið en t.d. í Reykjavík. Það er gott fyrir viðskiptavininn að geta bara hringt beint í okkur og finnast það ekki vera að trufla. Minni formlegheit.“

Færðu sig niður um eina hæð
KPMG flutti á milli hæða í þessu stærsta skrifstofuhúsnæði svæðisins að Krossmóa 4 um miðjan október, frá þriðju hæð til annarar. „Þetta rými var laust í Krossmóa og fyrirtækin á þriðju hæð þurftu á auknu plássi að halda. Það urðu hálfgerðar hrókeringar og við vorum svo meðfærileg að það var kannski auðveldast að flytja okkur. Okkur líst vel á nýja svæðið og líður vel hér og hlökkum til að taka á móti viðskiptavinunum,“ segir Berglind og bætir við að hún hafi ekki tölu á fjölda viðskiptavina. „Við erum með gommu af skattframtölum einstaklinga og álagastíminn er mestur á vorin og haustin. Svo erum við með endurskoðuð verkefni sem unnin eru í tengslum við skrifstofuna í Reykjavík. Þá fer fólk frá okkur sem aðstoðar þar, t.d. með H.S. orku og sveitarfélögin hér.

Góðverk í einu símtali
Sjálf er Lilja Dögg löggiltur endurskoðandi en með henni starfa viðurkenndur bókari og fólk með áratuga reynslu af bókhaldi. „Mest gefandi við starfið eru tengslin við fólkið, fjölbreytt verkefni og enginn dagur er eins. Ég reyni að leggja línur en þær breytast alltaf og það finnst mér stór kostur. Maður er sveigjanlegur og getur stokkið til og reddað. Svo er líka góð tilfinning að gera góðverk, jafnvel í einu símtali. Fólk virðist líka kunna meta þjónustuna því það er hér í viðskiptum ár eftir ár. Við vinnum með viðskiptavinum til að leysa það sem leysa þarf,“ segir Lilja Dögg að endingu.

VF/Olga Björt