Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kór Kálfatjarnarkirkju bráðum 60 ára
Þriðjudagur 26. október 2004 kl. 17:49

Kór Kálfatjarnarkirkju bráðum 60 ára

Kirkjukórar eiga það til að skipta um gír, leggja sálmasönginn á hilluna og taka á létta söngspretti. Þetta ætlar Kirkjukór Kálfatjarnarkirkju að gera í tilefni sextugs afmælis síns. Boðað er til söngskemmtunar í Glaðheimum í Vogum sunnudaginn 31. október næstkomandi kl. 16:00 og er aðgangur ókeypis. Efnisskráin er fjölbreytt og á milli atriða sameinast allir í fjöldasöng.

Tónlistarlíf í tengslum við kirkju og messuhald í Kálfatjarnarkirkju á sér langa sögu. Orgel hefur verið í Kálfatjarnarkirku í hartnær 130 ár, eða allt síðan 1876. Fyrsti organisti kirkjunnar var Guðmundur Guðmundsson útvegsbóndi í Landakoti sem þjónaði sem slíkur í 38 ár og óx blómlegt sönglíf í kringum hann.

Söngkór Kálfatjarnarkirkju var fyrst stofnaður sem félag 11. desember 1944. Kórinn verður því sextugur innan skamms. Enn starfa í kórnum 3 stofnfélagar en það eru þau Helgi Davíðsson frá Ásláksstöðum, Inga Margrét Sæmundsdóttir frá Minni-Vogum og Símon Kristjánsson frá Neðri-Brunnastöðum.

Kórstarf er tímafrekt. Að baki kirkjusöngnum liggur ómældur tími sem farið hefur í æfingar, ferðir og fjáröflun til að halda starfinu gangandi en það er gefandi að starfa í kirkjukór. Kórstarfið verður þeim sem því ánetjast eins konar orkustöð sem sótt er í til að hlaða batteríin.

Á stundum hafa menn óttast að kórinn lognaðist út af vegan ónógrar endurnýjunar en í dag er ekkert sem bendir til þess. Þvert á móti hefur kórinn verið að yngjast upp þar sem öflugt söngfólk hefur gengið til liðs við hann.

Félagar í kór Kálfatjarnarkirkju hvetja söngglaða Suðurnesjamenn til að kynna sér söngstarf í kirkjukórum og allir eru velkomnir til starfa með kór Kálfatjarnarkirkju. Kórinn æfir á þriðjudagskvöldum í Stóru-Vogaskóla og hefjast æfingar stundvíslega kl 20.00. Nánari upplýsingar veitir Snæbjörn Reynisson, kórformaður, í síma 424-6600 eða 424-6655 eða í gegnum tölvupóst á póstfanginu [email protected]

 



 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024