Kór eldri borgara með afmælistónleika á laugardag
Eldey, kór eldri borgara á Suðurnesjum, heldur afmælistónleika næsta laugardag, 8.október, klukkan 16:00 í Kirkjulundi í Keflavíkurkirkju. Kórinn varð 25 ára 17. september síðastliðinn og eru tónleikarnir af því tilefni. Á tónleikunum fær Eldey tvo kóra til liðs við sig, annars vegar Vorboðana, kór eldri borgara í Mosfellsbæ og hins vegar Hverafugla, kór eldri borgara í Hveragerði. Þá munu tónlistarmennirnir Veigar Margeirsson og Kjartan Már Kjartansson leika á tónleikunum.
Kórstjóri og undirleikari Eldeyjar er Arnór B. Vilbergsson
Kórstjóri og undirleikari Hverafugla er Örlygur Atli Guðmundsson
Kórstjóri Vorboða er Hrönn Helgadóttir og undirleikari Arnhildur Valgarðsdóttir
Kórarnir syngja einir og í lokin syngja þeir saman þrjú lög. Aðgangseyrir á tónleikana er 1.000 krónur.
Kórinn fagnaði afmælinu 17. september síðastliðinn þegar 57 kórfélagar og makar dvöldu í Wisbaden í Þýskalandi. Á afmælisdegi kórsins var siglt á Rín. Ferðin vakti mikla lukku og fór kórinn víða og naut leiðsagnar fararstjórans Soffíu Halldórsdóttir.
Myndirnar voru teknar í ferð Eldeyjar, kórs eldri borgara, til Þýskalands. Þar fagnaði kórinn 25 ára afmælinu.