Kominn með blöðrur í lófana eftir þrotlausar æfingar
„Kveikjan að þessu öllu saman var þegar ég var að ganga af Menningarnótt í fyrra og fann bara hvað ég var í lélegu formi og ákvað að ég þyrfti að gera eitthvað í því,“ segir Njarðvíkingurinn Arnar Vilhjálmsson sem ætlar sér að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands. „Ég sagði við fólkið sem var með mér síðustu Menningarnótt að ég skyldi klára 10 kílómetra að ári. Ég var svo með þetta á bak við eyrað en byrjaði svo ekkert að hlaupa neitt fyrr en í janúar,“ segir Arnar sem vílaði ekki fyrir sér að fara út í mestu kuldatíðinni og hlaupa. Arnar er búinn að æfa stíft í átta mánuði og fer orðið létt með 10 kílómetrana. „Ég reikna með því að það verði frekar létt,“ segir Arnar hógvær sem ætlar svo bara að sjá til með framhaldið. „21 kílómetrar kitla alveg þegar að maður er kominn þessa 10,“ bætir hann við og hlær.
Það sem að gerir afrek Arnars merkilegra en hjá flestum er að hann hefur verið hreyfihamlaður frá fæðingu og alltaf þurft að styðjast við hækjur. Hann hleypur því nánast bara á styrk efri líkama síns og hann sýnir blaðamanni blöðrur í lófunum á sér enda er hann búinn að vera duglegur að æfa undanfarið. Arnar hefur ávallt verið dugnaðarforkur og æfði meðal annars köfubolta þegar hann var yngri en auk þess hefur hann æft frjálsar íþróttir með ÍR.
„Maður hefur vakið athygli þegar maður fer út að hlaupa og fólk hefur verið að velta því fyrir sér hvað maður er að gera en maður er svo sem ekkert að auglýsa það.“
Faðir Arnars lést af völdum krabbameins í fyrra og Arnar segir að málefnið sé styrk út af því að þetta hafi snert fjölskyldu hans mikið, en fyrst og fremst segir hann þetta vera spurningu um að sigrast á sjálfum sér og sanna að maður geti þetta.
Arnar vill endilega að fólk styrki gott málefni og láti gott af sér leiða en styrkja má Arnar og aðra hlaupara sem leggja góðum málefnum á www.hlaupastyrkur.is en áheitanúmer Arnars er 1820.
Myndir/EJS.