Klikkaður kærleikur í Víkingaheimum
Það sem einkennir Ljósanótt í ár meira en Ljósanótt síðustu ára eru öll þau stóru og yfirgripsmiklu verkefni sem alfarið eru unnin af heimamönnum. Í ár eru fjölmörg stór atriði á dagskrá Ljósanætur sem alfarið eru sett saman og unnin af heimafólki.
Eitt þessara atriða verður „Klikkaður kærleikur“ sem settur verður upp í Víkingaheimum föstudagskvöldið 2. september kl. 21.
Klikkaður kærleikur er kynnt sem tískusýning og tónleikar í Víkingaheimum, öðruvísi sýning þar sem teflt verður saman tónlist, leiklist, myndlist og hönnun.
Þeir sem koma fram eru: Deep Jimi and the Zep Creams, Kvennakór Suðurnesja, Leikfélag Keflavíkur, Lína Rut og Spiral hönnun svo eitthvað sé nefnt. Húsið opnar kl. 20:30 og eru allir hjartanlega velkomnir.
Afrakstur kvöldsins mun renna í sérstakan styrktarsjóð sem hefur verið stofnaður með það fyrir augum að styrkja börn m.a. vegna veikinda eða fötlunar sinnar.
Sérstök einkennisfígúra Klikkaðs kærleika verður hinn svokallaði „Happy face“ sem er skapaður af listakonunni Línu Rut.