Klemenz Sæmundsson Suðurnesjamaður ársins 2013
Klemenz Sæmundsson tilheyrir stórum hópi fólks sem umhugað er um eigin heilsu og stundar reglulega hreyfingu sér til heilsubótar. Klemenz er mikill áhugamaður um hlaup og er vinsæl hlaupa- og hjólaleið á Suðurnesjum nefnd „Klemminn“ til heiðurs honum. Klemenz varð fimmtugur á árinu 2013 og ákvað í tilefni af þeim tímamótum að leggja land undir fót og láta gott af sér leiða. Hann hjólaði hringinn í kringum Ísland á rétt rúmri viku og kom til baka úr því ferðalagi á fimmtugsafmælisdaginn, 4. september. Þann dag hljóp hann einnig „Klemmann“, 22,7 km hringleið um Reykjanesbæ, Sandgerði og Garð.
Með þrekraun sinni lét Klemenz gott af sér leiða og safnaði áheitum til styrktar Blóðlækningadeild LSH. Söfnunin skilaði rétt um einni milljón króna. Þar sýndi Klemenz hvernig einstaklingsframtak getur gert samfélagið okkar betra og er á sama tíma öðrum hvatning og fyrirmynd.
Víkurfréttir hafa ákveðið að Klemenz hljóti útnefninguna Suðurnesjamaður ársins 2013.
Viðtal við Klemenz er í Víkurfréttum sem koma út í dag.