Klassart fær góða dóma
Hljómsveitin Klassart frá Sandgerði sem gaf nýverið út sína fyrstu plötu hefur fengið góðar viðtökur. Fréttablaðið gaf þeim fullt hús stiga, fjórar stjörnur, og fylgir hér umsögnin frá þeim.
Rólegheit frá Sandgerði
Hljómsveitin Klassart er borin uppi af systkinunum Smára og Fríðu Dís Guðmundsbörnum frá Sandgerði.
Hljómsveitin Klassart er borin uppi af systkinunum Smára og Fríðu Dís Guðmundsbörnum frá Sandgerði. Smári semur bróðurpartinn af lögunum og spilar á ýmis hljóðfæri, mest þó á gítarinn, en Fríða syngur og semur nokkra af textunum. Hljómsveitin byrjaði sem dúó þeirra systkina, en er í dag sex manna.
Klassart hefur starfað í nokkur ár, en vakti fyrst athygli þegar hún sigraði í blúslagakeppni Rásar 2 í fyrra með laginu Bottle Of Blues, en það er titillag þessarar fyrstu plötu þeirra.
Tónlistin á Bottle Of Blues er blús og kántrískotið rokk í rólegri kantinum. Hún minnir stundum á Noruh Jones eða Cowboy Junkies, en líka á Tom Waits á Asylum-tímabilinu á áttunda áratugnum. Öll lögin níu á plötunni eru frumsamin, nema lagið Örlagablús sem er eftir Waits með íslenskum texta eftir Baggalútinn Braga Valdimar Skúlason.
Það er ekki verið að finna upp hjólið á Bottle Of Blues, en það sem gerir plötuna jafn góða og raun ber vitni eru fínar lagasmíðar, flottar útsetningar, óaðfinnanlegur hljóðfæraleikur og söngur Fríðu sem hefur mjög fallega rödd sem hún beitir á seiðandi, en afslappaðan hátt. Hljómurinn er líka góður þannig að platan er á sinn hátt eiginlega fullkomin.
Það er mjög sterkur heildarsvipur á Bottle Of Blues. Lögin eru öll í sama rólega taktinum, en útsetningarnar gefa þeim karakter. Í sumum lögunum er t.d. orgel, í öðrum píanó, sumstaðar er kontrabassi, annars staðar slæd-gítar... Í laginu Mrs. Jones er trommunum sleppt, en rafmagnsgítarinn og munnharpan í aðalhlutverki. Mjög flott. Það eru reyndar engin aukvisar sem sjá um hljóðfæraleikinn, Guðmundur Pétursson gítarhetja og Sigurður H. Guðmundsson hljómborðsleikari Hjálma og fleiri.
Á heildina litið er þetta einstaklega vel heppnuð frumraun frá hljómsveit sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.
Trausti Júlíusson, Fréttablaðinu.
Mynd: Gúndi.