Klassart á Blúskvöldi Blúsfélags Suðurnesja
Fyrstu tónleikar Blúsfélagsins verða haldnir í Top of the Rock á Ásbrú á morgun, fimmtudaginn 17. desember kl. 20. Félagið var stofnað í síðasta mánuði með feiknagóðri mætingu á stofnfundinum. Greinilegt er að mikill áhugi er fyrir blús á Suðurnesjum og verður því veglega tjaldað til á fyrsta blúskvöldi félagsins.
Það verða þrjár hljómsveitir sem stíga á stokk á fyrsta kvöldinu. Fyrst er að nefna Strákana hans Sævars.
Strákarnir eru þétt „djamm band“ sem hefur „verið í bílskúrnum í mörg ár og ætla sér að vera þar eitthvað áfram“ að eigin sögn. Við erum því lánsöm að ná þeim út í stutta stund.
Svo er ekki hægt að hafa blúskvöld án þess að hin eina sanna Klassart úr Sandgerði komi og takið lagið. Enda vakti það mikla kátínu að þau skyldu kíkja við á stofnfundinum og var því samróma álit allra að ekki væri hægt annað en að fá að heyra meira frá þeim.
Þá mun hin þjóðkunna „Blues Akademían“ stíga á stokk.
Þar eru á ferðinni:
Páll Pálsson - bassi
Tryggvi Hubner - gítar
Jón Borgar Loftsson - trommur
Sigurður Sigurðsson - munnharpa, söngur
Pjetur Stefánsson - söngur, gítar
Efnisskrá Akademíunnar samanstendur annarsvegar af sígildum blúsverkum eldri meistara og hins vegar frumsömdum rokk og blús verkum.
Miðaverð á tónleikana er 1000 kr.