Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Klæðir fólkið sitt á Vatnsleysuströnd
Peysan Kristín heitir eftir langömmu Margrétar sem var bóndi í Móakoti. Tvíhneppti jakkinn Móri heitir eftir draugi sem ábúendur í Móakoti urðu varir við.
Sunnudagur 24. janúar 2016 kl. 07:00

Klæðir fólkið sitt á Vatnsleysuströnd

- Vinsælar prjónapeysur kenndar við Móakot

Uppskriftir undir merkinu Móakot hafa notið mikilla vinsælda. Móakot er lítið býli á Vatnsleysuströnd sem nú er komið í eyði og á hönnuður uppskriftanna ættir sínar að rekja þangað. Margrét Halldórsdóttir er prjónakonan á bak við Móakots peysu uppskriftirnar sem notið hafa mikilla vinsælda. Margrét á ættir sínar að rekja til býlisins Móakots á Vatnsleysuströnd og er hönnun peysanna óður til formæðra og feðra sem þar bjuggu. „Það má eiginlega segja að Móakot sé áhugamál sem fór úr böndunum,“ segir Margrét. Hún er sálfræðingur og starfar sjálfstætt á stofu og sinnir prjónaskapnum og hönnun fyrir Móakot í frístundum.
 
Langamma Margrétar, Kristín Jónsdóttir, eignaðist Móakot árið 1879, þá aðeins tvítug að aldri. Margrét telur víst að langamma hennar Kristín hafi verið sjálfstæð og sterk kona, þar sem hún var einhleypur bóndi í Móakoti þar til hún varð 32 ára er hún giftist sveitunga sínum og langafa Margrétar, Bjarna Sigurðssyni. Þau ráku búskap saman í Móakoti til ársins 1923. Margrét er þegar búin að setja á markað peysu sem heitir Kristín í höfuðið á langömmu sinni og peysuna Bjarna í höfuðið á langafa sínum. „Það má eiginlega segja að ég sé að klæða fólkið mitt“ segir hún. „Ég sá mynd af langömmu og hún var afskaplega myndarleg kona og hann Bjarni langafi minn ekki síður. Ég ákvað að hanna kvenlega peysu með hreinum línum fyrir hana. Bjarni er svo einbandspeysa með Alpaca þræði.“ 
 
Móri draugur fær jakka
Eftir að peysu uppskriftirnar komu á markað hefur margt fólk sem áður bjó í Móakoti sett sig í samband við Margréti. Ein þeirra benti Margréti á að draugurinn Móri hefði verið þekktur ábúendum í Móakoti. Sú hét á Margréti að hanna peysu og nefna hana eftir drauginum. Margrét er búin að hanna tvíhnepptan herrajakka sem mun heita Móri og er væntanlegur á markað. Uppskriftirnar eru víða seldar, meðal annars hjá Gallerý Spuna í Grindavík, í Fjarðarkaupum, hjá Ömmu Mús og Handprjónasambandi Íslands.
 
Margrét hefur nær alla tíð prjónað í frístundum. Hún stundaði framhaldsnám í sálfræði í Noregi á 9. áratugnum og var þá mikið prjónaæði þar og prjónaði Margrét daglega. Svo prjónaði hún með hléum næstu árin. Stuttu eftir hrun hélt Ístex keppni og sendi Margrét þá inn peysuna Þjóðbjörgu og vann keppnina. Stuttu síðar hélt móðurfjölskylda Margrétar ættarmót við Móakot og eftir það ákvað hún að setja uppskriftir undir merki Móakots á markað. „Á ættarmótinu fékk ég ýmsar upplýsingar um fólkið mitt og nefni peysurnar allar eftir þeim en líka eftir náttúrunni á Vatnsleysuströnd. Til dæmis er ein brún sem heitir Móbjörg sem passar fallega inn í náttúruna í kringum Móakot.“
 
Gömul bréf veittu innblástur
Amma Margrétar og nafna flutti frá Móakoti til Hafnarfjarðar og skrifaðist lengi á við Kristínu móður sína sem enn bjó þar. Margrét fékk síðar sum bréfanna og hafa þau veitt henni innblástur við hönnunina. „Póstmaðurinn fór með bréfin á milli Vatnsleysustrandar og Hafnarfjarðar á hesti. Ég er heilluð af lífi fólks um þar síðustu aldarmót. Það var svo harðbýlt og fólk gekk jafnvel ekki í ullarfötum. Ég hugsa að þetta hafi verið mikil vosbúð.“ Margrét lét gera nákvæma eftirlíkingu af broti bréfanna og uppskriftirnar að Móbjörgu og Þorbjörgu eru prentaðar á þau.
 
Uppskriftir Margrétar eru seldar einar og sér en ekki í prjónablöðum eins og sennilega flestar uppskriftir sem gefnar eru út hér á landi. Margrét segir hugarfar Íslendinga gagnvart höfundarrétti hafa breyst mikið á undanförnum árum og því minna um að fólk ljósriti uppskriftir og dreifi meðal vina og kunningja. „Sá skilningur er að aukast að því fleiri sem festa kaup á hönnunarvöru, því meiri líkur eru á að verðið lækki.“ Peysurnar eru allar úr einbandi og segir Margrét það mjög gott í peysur til að klæðast inni, tvöfaldur lopi sé of hlýr fyrir marga til að vera í innandyra. Prjónafólk hér á landi og víða um heim hefur tekið vel á móti Móakots peysunum og hafa uppskriftirnar verið þýddar á dönsku og ensku og eru þær seldar í ýmsum erlendum vefverslunum. Sjálf hefur Margrét fengið pöntun frá Ástralíu. Það má því segja að litla Móakot á Vatnsleysuströnd sé farið í útrás.
 
 
 
Peysurnar frá Móakoti hafa notið mikilla vinsælda hér á landi sem og erlendis. Á myndinni er Margrét að kynna þær á prjónaviðburði í Kaupmannahöfn í ágúst síðastliðnum.
Móakot á Vatnsleysuströnd er nú komið í eyði.
 
 
 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024