Kiwanisklúbburinn Keilir 40 ára
Kiwanisklúbburinn Keilir í Keflavík fagnaði 40 ára afmæli í gær en hann var stofnaður 30. september 1970. Í tilefni dagsins var blásið til afmælisveislu í húsakynnum klúbbsins að Iðavöllum 3 þar sem hann hefur haft aðsetur frá árinu 1991. Fjöldi gesta var mættur til afmælisveislunnar í gær þar sem klúbbnum voru færðar góðar gjafir.
Kiwanisklúbburinn Keilir hefur í gegnum árin stutt við bakið á þeim sem minna mega sín eða lenda illa í baráttu sinni við sjúkdóma og önnur áföll. Þá hefur klúbburinn verið öflugur bakhjarl Þroskahjálpar á Suðurnesjum. Helsta fjáröflunarleið klúbbsins í þessu skyni hefur verið árviss jólatréssala allt frá stofnun hans og hefur hún ávallt hlotið góðar undirtektir bæjarbúa.
Klúbburinn hefur einnig aflað fjár með árlegu Lundakvöldi og þá má nefna Kiwanisklukkuna sem stendur á hringtorginu á mótum Hafnargötu og Aðalgötu og aflar tekna af auglýsingum. Á þessum 40 árum hefur klúbburinn styrkt ýmis verkefni fyrir um 50 milljónir króna. Í tilefni afmælisins í gær var tveimur félögum færður styrkur upp á 250 þúsund krónur hvor en það voru Íþróttafélagið Nes og Þroskahjálp á Suðurnesjum.
Stofnfélagar klúbbsins voru 16 fyrir fjörtíu árum en félagsmenn eru vel á fjórða tuginn í dag. Einn af stofnfélögum klúbbsins er enn starfandi í honum en það er Karl Taylor.
Efri mynd: Fjöldi gesta heiðraði klúbbinn með nærveru sinni á afmælisdaginn.
Neðri mynd: Fulltúar Nes og Þroskahjálpar á Suðurnesjum tóku á móti fjárstyrkum í tilefni af afmæli Kiwanisklúbbsins Keilis.
VFmyndir/elg.