Kira Kira opnar sýninguna Spilar út
- í Suðsuðvestur sýningarrými laugardaginn 15. nóvember kl. 17:00.
Hann hættir aldrei að spila. Gamli skarfur.
Hann spilar út. Klappar saman lófunum, gerir að ganni sínu. Er ekkert fyndið að vera dauður? Jú víst. Það er bara alveg drep- andskoti fyndið.
Iljarnar eilíft sem saumaðar við fetlana, sjálfsögð framlenging af skarfinum og eins og hann sjálfur, andar orgelið hrjúft.
Kanill í skegginu.
Á sýningunni er hljóðverk og 16 mm filma, en hún verður opin til 28. desember.
Kristín Björk Kristjánsdóttir, eða Kira Kira, fæst jöfnum höndum við myndlist og tónlist. Hún er forsprakki listhreyfingarinnar Tilraunaeldhússins (e. Kitchen Motors) sem starfrækt hefur verið bráðum í tíu ár og fæst þar við samband framsækinnar raftónlistar og myndlistar.
Nýafstaðin heimsreisa
Fyrir fáeinum dögum kom Kristín Björk úr nokkuð skrautlegri heimsreisu þar sem hún flutti meðal annars Flugdrekasinfóníu II fyrir utan Shanghai Museum of Science and Technology í samvinnu við Shanghai Kite Society, en það er félagsskapur flugdrekasérfræðinga á eftirlaunum. Í Flugdrekasinfóníunni flugu sérsmíðaðir drekarnir með lauflétta, þráðlausa míkrófóna sem sendu hljóðin niður til Kiru Kiru þar sem sinfónían varð til í tökkunum.
Frá Shanghai lá leiðin til Tokyo þar sem Kira Kira hélt útgáfutónleika fyrir plötuna Our Map to the Monster Olympics sem kom út hjá japanska útgáfufyrirtækinu og tímaritinu Afterhours fyrir skömmu. Þar léku með henni Samuli Kosminen, Eiríkur Orri Ólafsson, Pétur Hallgrímsson, Alex Somers og Magnús Helgason. Allir hjálpuðust að við að teikna hljómsveitarboli sem seldust eins og heitar lummur á uppsprengdu verði að loknum tónleikum, enda mikil samúð þar með íslenska krónudramanu.
Eftir þetta flugu Kira Kira og félagar til Finnlands þar sem þau léku á tvennum tónleikum, meðal annars með fiðlustjörnunni Pekka Kuusisto og þjóðlagabangsanum Sami Kukka og tóku upp slatta af nýrri tónlist áður en Kira hélt til Rússlands ásamt Kára Hólmari Ragnarssyni básúnuleikara þar sem þau léku á tvennum tónleikum, í Pétursborg og í Moskvu. Þar var þeim svo boðið í hljóðver þar sem þau spunnu ásamt rússneskum tónlistarmönnum fyrir plötu sem ráðlagt er að komi út hjá Snegiri Music –þarlendu útgáfufyrirtæki sem einnig hyggst gefa úr Our Map to the Monster Olympics í Rússlandi á komandi ári.
Sýningin í Suðsuðvestur verður opin laugardaga og sunnudaga milli 13:00 og 17:00 og eftir samkomulagi.
Nánari upplýsingar:
www.sudsudvestur.is
www.this.is/kirakira
www.myspace.com/trallaladykirakira