Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 22. febrúar 2001 kl. 10:39

KFM 107: Skemmtileg dagskrá fyrir alla

Á Miðnesheiði, í húsnæði Byrgisins í Rockville, er rekin öflug útvarpsstöð, KFM 107 - Kristilega fjölmiðlamiðjan. Útsendingar eru allan sólarhringinn og efnið byggist á skemmtilegri tónlist, viðtölum og öðru léttmeti. Á næturnar og á daginn eru fluttar ræður. Stöðin er rekin í kristilegum anda og útvarpsstjóri er Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins. Dagskrárstjóri er Sverrir Júlíusson, en hann hefur verið viðloðandi útvarpsrekstur síðan hann var 16 ára, eða í tíu ár. Silja Dögg Gunnarsdóttir lagði nýlega leið sína í Byrgið og heilsaði upp á Sverri og Ólaf Pétursson sem aðstoðar Sverri við daglegan rekstur stöðvarinnar og er einnig með sinn eigin þátt sem heitir Óli Skans og er útvarpað á milli kl. 13-14 alla virka daga.

Mynd: Dagskrárstjórinn Sverrir Júlíusson og þáttagerðamaðurinn Ólaf Pétursson
Útvarp fyrir ungt fólk
„Við spilum aðallega kristilega tónlist fyrir ungt fólk, en u.þ.b. 40% af útsendingartímanum er ætlaður eldri aldurshópum. Dagskráin samanstendur þá af spjallþáttum, upplestrum úr bókum, stuttum versum úr Biblíunni o.þ.h. Það má því segja að við útvörpum kristilegu efni, fræðslu og afþreyingu í bland, segir Sverrir.
„Við verðum vör við að hlustendahópurinn er að stækka og mikið af unglingum hefur gaman af að hlusta á okkur. Hópur kristinna ungmenna frá Bandaríkjunum kom nýlega í heimsókn til Íslands og heimsóttu söfnuði í Reykjavík. Mér skilst að þau hafi eingöngu hlustað á KFM, segir Sverrir og er auðheyrilega ánægður með velgengni stöðvarinnar.

Stórt útsendingarsvæði
KMF 107 er nú með 100 watta sendi en unnið er við að setja upp 1000 watta sendi sem mun ná yfir Stór-Reykjavíkursvæðið, Suðurnes og upp í Borgarfjörð. Það gæti jafnvel verið á dagskrá að stækka útsendingarsvæðið enn frekar á næstunni. „Við erum með ýmislegt í gangi en á næstunni munum við opna þrjár útvarpsstöðvar á Netinu sem spila eingöngu tónlist. Við erum líka að fara af stað með sjónvarpsstöð á Netinu, Channel 7 og gerum okkur vonir um að útsendingar geti hafist í sumar“, segir Sverrir og upplýsir blaðamann einnig um að KMF 107 sé í samstarfi við Byrgið um forvarnir gegn eiturlyfjum og áfengi í allri dagskrárgerð og við gerð heimasíðu á Netinu.

Upplýsingar um allt milli himins og jarðar
„Netslóðin okkar opnar formlega 1. mars og verður www.klettur.is. Þar getur fólk séð hvað er á dagskrá í Byrginu og þangað geta unglingar fengið upplýsingar um ávana- og fíkniefni og alls konar fíknir s.s. matarfíkn. Einnig verðu hægt að nálgast upplýsingar um hvert á að snúa sér þegar eitthvað bjátar á, hvaða kirkju hægt er að leita til, meðferðarúrræði o.fl. Við munum ekki gera upp á milli meðferðarúrræða né kristinna trúarsafnaða heldur gefa upplýsingar og fólk sér svo um að velja fyrir sjálfan sig hvað hentar best. Við höfum t.d. rætt við lækna um að skrifa pistla fyrir okkur á síðuna og fengum góð viðbrögð frá þeim. Fólk getur spurt okkur spurninga sem við látum læknana hafa og þeir sjá síðan um að gefa góð svör“, segir Sverrir.
Af ofantöldu má sjá að það er fólk með metnað sem stýrir KFM 107. „Framtíðarsýnin er að vera með meira en útvarpsstöð og takmarkið er að bjóða upp á ýmsa þjónustu og vera með útvarpsstöð sem er með skemmtilega dagskrá fyrir alla.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024