Keypti gamalt hús og ákvað að læra húsasmíði
„Ég tók einhverjar einingar á myndlistarbraut í Fjölbraut Breiðholti en svo fluttum við fjölskyldan hingað árið 2015 þegar við keyptum okkur gamalt hús í Keflavík. Við vildum flytja úr stressinu í Reykjavík í meiri frið og ró, sem var að vísu þá en nú hefur þetta allt breyst og bærinn orðinn mjög stór með fullt af fólki. Við erum með þrjú börn á aldrinum fimm til þrettán ára. Mig langaði að verða smiður þegar ég var krakki en einhvern veginn eltist ég ekki við það. Svo þegar við keyptum okkur gamalt hús á Túngötunni og ákváðum að taka það í gegn í rólegheitum, þá ákvað ég í leiðinni að skella mér í húsasmíðadeild FS svo ég gæti gert eitthvað líka,” segir húsasmíðaneminn Anna Karen Sigvaldadóttir. Að hennar sögn hefur hún lært helling í húsasmíðanáminu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja en áður en hún hóf námið hafi hún varla vitað hvað borvél væri.
„Ég er ekki komin á samning ennþá en hef verið að hjálpa ættingjum og vinum með ýmislegt. Stelpum er að fjölga í alls konar iðnnámi og ég er alltaf að sjá fleiri og fleiri stelpur í iðnaðarvinnufötum. Þetta fer að verða eðlilegt. Mér líður rosalega vel í deildinni og mér finnst strákarnir ekkert vera að kippa sér upp við það að ég sé með þeim. Það verður samt að viðurkennast að þeir eru jú með testósteron sem við stelpurnar erum ekki með og því geta þeir yfirleitt lyft þyngri hlutum en ég. Þó þeir séu sterkari líkamlega skiptir það samt engu máli. Stelpur sem hafa áhuga á að læra smíðar ættu að skella sér í námið. Þetta er svo gaman.“