Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Kennir samstarfsfólkinu táknmálstákn
Jakub lærir íslensku af samstarfsfólki sínu og þau táknmál hjá honum. Hann er annar á myndinni frá hægri. VF-mynd/hilmarbragi
Laugardagur 11. febrúar 2017 kl. 06:00

Kennir samstarfsfólkinu táknmálstákn

- Kokkur á Soho hefur gert starfsmannahópinn nánari

Jakub Grojs er 22 ára pólskur kokkur á veitingastaðnum Soho í Reykjanesbæ. Hann er heyrnarlaus en hefur þó ekki átt í neinum vandræðum með að eiga í samskiptum við samstarfsfólkið. Hann hefur kennt hópnum ýmis táknmálstákn og stundum nota þau símann til að tala saman. Þá skrifar Jakub setningu á pólsku inn í Google Translate og sýnir þeim sem hann er að tala við þýðinguna á íslensku.

Að sögn Arnar Garðarssonar, yfirmatreiðslumeistara á Soho, hefur nærvera Jakubs gert hópinn nánari. „Við einbeitum okkur að því að skilja hann og hann sömuleiðis að skilja okkur og við erum alltaf að læra eitthvað nýtt. Nú orðið kunnum við ýmis tákn um klukkuna, dagana og matinn. Jakub heilsar okkur með handabandi á hverjum morgni og núna er það eitthvað sem við höfum vanið okkur á að gera öll hvert við annað,“ segir hann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Örn segir mikilvægt að atvinnurekendur gefi fólki með fötlun tækifæri á vinnumarkaði. „Það er yfirleitt hægt að finna leiðir til að fólk passi inn í hópinn og ég er rosalega ánægður með að hafa tekið þá ákvörðun að ráða Jakub enda er hann mjög metnaðarfullur.“

Jakub hefur lengi haft áhuga á Norðurlöndunum, bæði menningu og matargerð og ákvað þess vegna að flytja til Íslands. Hann er þegar byrjaður að læra íslensku og les til dæmis uppskriftir á veitingastaðnum.

Jakub Grojs kokkur og Örn Garðarsson, yfirmatreiðslumeistari á Soho.

Blaðamaður Víkurfrétta tók viðtal við Jakub með hjálp Google Translate.

Hvers vegna ákvaðst þú að flytja til Íslands?
Ég er mjög hrifinn af Norðurlöndunum, bæði menningunni og matnum.

Hvernig kom það til að þú fórst að vinna hér?
Ég var hérna á Íslandi og sá starfið auglýst. Mér líkar mjög vel að vinna hér á Soho.

Hvar lærðir þú að verða kokkur?
Í tækniskóla heima í Warsjá í Póllandi. Ég hef fengist við eldamennsku síðan ég var 16 ára gamall.

Hvernig gengur að eiga samskipti við samstarfsfólkið?
Það gengur mjög vel. Ég er aðeins byrjaður að læra íslensku hérna í vinnunni og ætla að halda því áfram. Stefnan er að ná fullum tökum á íslenskunni.

Hver er þinn uppáhalds matur?
Dömplingar með sauerkraut (súrsuðu hvítkáli). Það er pólskur réttur sem ég held mikið upp á. Kannski á ég einhvern tíma eftir að elda pólskan mat hérna á Soho, hver veit?

Hvað er það skemmtilegasta við að vera kokkur?
Gleðja fólk með góðum mat og auðvitað að vinna með góðum vinnufélögum, sem ég geri svo sannarlega hér á Soho.

Nú ert þú búinn að vera á Íslandi í hálft ár. Saknar þú fjölskyldu og vina heima í Póllandi?

Já, ég geri það en kærastan mín ætlar bráðum að flytja til mín, hingað til Íslands og ég hlakka mikið til.

Sjónvarp Víkurfrétta kíkti í heimsókn á Soho á dögunum og má sjá innslagið hér fyrir neðan

 

[email protected]