Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kemst lengst í því sem er skemmtilegast
Ástrós Brynjarsdóttir, íþróttamaður Reykjanesbæjar 2013.
Laugardagur 11. janúar 2014 kl. 12:00

Kemst lengst í því sem er skemmtilegast

Íþróttamaður Reykjanesbæjar stefnir langt á árinu.

Ástrós Brynjarsdóttir var skömmu fyrir áramót kjörin íþróttamaður Reykjanesbæjar árið 2013. Einnig var hún valin taekwondokona Íslands árið 2012 og 2013 og Norðurlandameistari í fyrra. Hún hefur sýnt fram á langbesta árangur sem nokkur íslensk taekwondokona hefur náð á einu ári frá upphafi og hún er rétt að verða 15 ára. Því er ljóst að hér er á ferðinni ein efnilegasta íþróttakona landsins. Olga Björt heimsótti Ástrósu rétt fyrir áramót.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ástrós og móðir hennar, Kolbrún Guðjónsdóttir.

 

Áhugamál fjölskyldunnar

„Ég fékk áhuga á taekwondo þegar ég var sjö ára. Þá æfði Jón Steinar, eldri bróðir minn, hana og besta vinkona mín ætlaði einnig að fara að æfa. Ég prófaði og þetta var bara það skemmtilegasta sem ég hef gert,“ segir Ástrós. Taekwondo er sameiginlegt áhugamál fjölskyldunnar sem Ástrós segir að geti talað endalaust saman um. „Það sem er skemmtilegast við þessa íþrótt er að á æfingum erum við eins og ein heild. Við hjálpumst öll að og erum eins og ein stór fjölskylda. Það hjálpar mjög mikið til.“


Getur bjargað vinkonunum

Spurð um hvaða áhrif þessi íþróttaiðkun hafi á líf sitt, segist Ástrós vera öruggari úti á götu, því ef eitthvað gerist þá kunni hún tækni til að verja sig. „Við vinkonurnar gerum mikið grín að því að ef einhver kemur og ræðst á okkur þá fer ég bara og bjarga þeim,“ segir hún og hlær. Hún læri sjálfsvörn um leið og hún æfi bardagatækni og það geti komið sér vel.


Hver æfing skiptir máli

Varðandi besta lífsstílinn til að vera góð í íþróttum segir Ástrós að sumir fæðist og hafi hæfileika í einhverju en það þurfi alltaf að æfa til að verða betri. „Það skiptir miklu máli að vera dugleg að mæta á æfingar. Ekki hanga í tölvu, sofa eða vera löt. Maður verður alltaf betri við að mæta og hver æfing skiptir máli. Það er hægt að missa af svo miklu með því að sleppa einni æfingu.“ Stærsta markmið Ástrósar er að komast á heimsmeistaramót. Svo er Norðurlandamót á Íslandi um mánaðamót maí/júní.


Mamman með svarta beltið

Móðir Ástrósar, Kolbrún Guðjónsdóttir, byrjaði að æfa fyrir sjö árum og er nýbúin að fá svarta beltið. Hún hvetur dóttur sína ótrauð áfram en bendir á mikilvægi þess að þetta megi ekki vera kvöð. Löngunin í aukinn árangur og að ná í fleiri stig hafi þau áhrif að Ástrós vill keppa sem oftast. Þegar einhver sé orðinn svona sterkur í einhverri grein á Íslandi þá sé hætta á stöðnun. Mesta reynslan fæst á erlendum mótum.


Safnar stigum á heimslistann

Annasamasti tími ársins hjá Ástrósu er frá janúar og fram á sumar. „Hún stefnir á heimsmeistaramót sem haldið verður nálægt Kína í mars. Hún stefnir reyndar líka á Ólympíumót sem haldið verður á svipuðum slóðum á svipuðum tíma, þótt miðað sé við að þátttakendur séu fæddir 1998 eða fyrr. Ástrós er fædd 10. janúar 1999, svo það munar bara 10 dögum. Mót eru oft á svipuðum slóðum til að auðvelda þátttakendum að taka þátt og safna stigum á heimslistann til að öðlast rétt til þess að taka þátt í enn fleiri mótum. Hún fær stig fyrir að mæta á mót og stig fyrir að fá verðlaun. Stigin rýrna um hver áramót, eins og vildarpunktar,“ segir Kolbrún og brosir.


Dýrt fyrir Íslendinga að fara á stórmót

Ástrós hefur eignast marga vini frá öðrum löndum í tengslum við keppnir og er í sambandi við þá á Facebook. „Við hittumst á mótum og það er meiri stemning að þekkja einhvern þegar maður keppir. Svo er gaman að fylgjast með hvert öðru og árangri sem næst,“ segir Ástrós. Kolbrún bætir við að oft sé erfitt að vera Íslendingur sem tekur þátt í mótum um allan heim því það sé dýrast að ferðast til og frá landinu en strax ódýrara þegar komið er til meginlandanna.

„Þess vegna er svo mikilvægt að keppa á sem flestum stórmótum sem haldin eru á svipuðum slóðum,“ segir Kolbrún.



Ástrós við viðurkenningar sem hún hlaut í lok ársins. Þetta er aðeins hluti af viðurkenningum í hennar eigu. 

 

Þakklátar þeim sem styrkja

Þær mægður segja Reykjanesbæ og Samkaup, og einstaka minni fyrirtæki, hafa verið dugleg að styrkja Ástrósu. „Við höfum farið á milli fyrirtækja til að biðja um styrki og einnig verið að selja ýmislegt til að fjármagna ferðir. Það er erfitt fyrir litlar íþróttadeildir eins og taekwondo að fá styrki,“ segir Kolbrún og Ástrós bætir við: „Deildin styrkir alltaf og svo kemur smávegis frá Taekwondosambandi Íslands. Þær segja notalegt að finna hversu stolt fyrirtækin hér eru og fólkið af árangri deildarinnar. Á lokahófi ÍSÍ var Ástrós, ásamt Bjarna Júlíusi Jónssyni, valin taekwondofólk ársins. Í veislu á eftir kom einhver maður til Ástrósar og sagði: „Maður var bara stoltur og fagnaði heima að það væri þarna einhver frá Suðurnesjum.“


Leyfir sér Oreo kex eftir vigtun

Spurð um viðhorf sem hún temji sér fyrir keppnir segir Ástrós að stundum hugsi hún með sér að hún ætli sér að vinna mót. „En þegar ég er hrikalega stressuð, sem getur auðveldlega skemmt fyrir manni, þá fer ég með því hugarfari að hafa gaman af og gera mitt besta. Það skiptir líka máli og gengur oft mjög vel,“ segir Ástrós. Mataræði skiptir einnig máli þegar árangri skal náð í íþróttum. Þegar það fer að styttast í mót þá segist Ástrós sleppa sykri og skyndibita en borði mikið af fiski og óunnu kjöti.

 

„Í þessari íþrótt þarf að passa þyngd vegna þess að fólk skráir sig í ákveðinn þyngdarflokk. Mikið er í húfi. Ef hún er of þung er hún ekki færð um flokk heldur dettur hún úr keppni, svipað og í hnefaleikum,“ segir Kolbrún og bætir við að hún þurfi að passa kryddaðan mat eða eitthvað sem bindur vatnið í líkamanum. Drekka mikið vatn, borða lítið í einu og oft á dag, mikið af grænmeti og ávöxtum. „Á ferðalögum tökum við með okkur litla tómata, brokkolí og salat með kjúklingi fram að vigtun. Svo leyfir hún sér aðeins eftir vigtun, til dæmis Oreo kex.“


Þjálfarinn mjög mikilvægur

Ástrós segir marga kosti við það að stunda svona íþrótt af kappi. „Þetta heldur mér í formi, ég hreyfi mig og hef gott þol. Ég væri líklega mjög löt ef ég væri ekki í íþróttum“. Þegar hún fer á mót segir hún hjálpa mikið að hafa bróður sinn og mömmu sína með. Hún tali mikið þegar hún sé stressuð og rói sig þannig niður. „Ég er mjög háð bróður mínum og þjálfaranum, Helga Rafni Guðmundssyni.“

 

Kolbrún bætir við að það skipti svo miklu máli að þjálfarinn skilji hana og leiði hana í gegnum loturnar. „Hann les mótherjann í fyrstu lotu og segir henni hvaða aðferðum hún skal beita. Hún nær góðri tengingu við Helga og hann er búinn að vera þjálfari hennar frá upphafi,“ segir Kolbrún. Ástrós bætir við að auðvelt sé að keyra sig út í bardaga. Ég verð að passa að eyða ekki of mikilli orku í fyrstu lotunum. Þriðja lotan er mikilvægust. En samt er alltaf líka mikilvægt að hafa gaman af þessu. Þú kemst lengst í því sem þér finnst skemmtilegast,“ segir Ástrós að lokum.


VF/Olga Björt