Keilir svarar eftirspurn eftir ævintýraleiðsögumönnum
Ævintýraferðamennska er á heimsvísu í gífurlegri sókn. Ferðamannaiðnaðurinn kallar eftir meiri menntun leiðsögumanna og aukin krafa er um fagmennsku allra þeirra sem taka á móti ferðafólki. Margir þeirra sem kaupa ævintýraferðir gera þá kröfu að leiðsögumenn sýni fram á gild skírteini leiðsögumanna. Keilir hefur brugðist við þessum breyttu og auknu kröfum með því að bjóða upp á leiðsögunám í ævintýraferðamennsku í samstarfi við virtan kanadískan háskóla.
Leiðsögunám í ævintýraferðamennsku á Íslandi hefur fengið fljúgandi start hjá Íþróttaakademíu Keilis. Boðið er upp á námið í samstarfi við Thompson Rivers University (TRU) í Kanada, sem er einn virtasti háskóli í heimi á sínu sviði. Meðal útskrifaðra nemenda þeirra eru nokkrir íslenskir leiðsögumenn sem sumir hverjir hafa klárað framhaldsnám í sömu fræðum frá TRU. Undirbúningur fyrir námið hér á landi tók tæpt ár og á vormánuðum var búið að hnýta alla enda og hægt að kynna námið. Sem dæmi um áhuga Íslendinga á náminu tók einungis eina tilkynningu á Facebook til þess að á fjórum dögum bárust Keili 50 fyrirspurnir frá áhugasömum nemendum. Stjórnendur námsins, í samstarfi við gæðastjóra TRU, gátu því strax valið vandlega hóp 16 nemenda, sem voru tilbúnir að leggja á sig spennandi en krefjandi nám. Á haustdögum hófst svo námið og þegar er farið að leggja grunn að því að taka inn næsta hóp nemenda næsta haust.
Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis, segir í samtali við Víkurfréttir að nemendurnir hafi margir bakgrunn úr fjallamennsku eða úr björgunarsveitunum sem eru góður jarðvegur fyrir fólk sem hefur áhuga á fjallaferðum og ævintýraferðamennsku. Nemendurnir koma úr ýmsum áttum og sumir hafa starfað í ævintýraferðamennsku í einhver ár. Hópurinn samanstendur af 12 körlum og 4 konum. Arnar hvetur kvenfólk til að sækja um í þetta nám því eftirspurn eftir kvenfólki í leiðsögn í ævintýraferðamennsku er ekkert minni en hjá körlum. Þá segir Arnar að ferðaþjónustufyrirtækin sem bjóða upp á ævintýraferðir hér á landi hafi tekið þessu námi fagnandi, enda séu næg störf fyrir menntaða leiðsögumenn í ört vaxandi ferðamannaiðnaði.
Um er að ræða 30 eininga, heils árs nám á háskólastigi, sem hentar vel þeim sem hafa mikinn áhuga á ferðamennsku og útivist við krefjandi aðstæður. Útskrifaðir nemendur hafa möguleika á að vinna á óhefðbundnum og fjölbreyttum starfsvettvangi með góðum starfsmöguleikum víða um heim í ört vaxandi grein ævintýraferðamennsku. Námið er jafnframt grunnur að helstu þáttum ævintýraferðamennsku. Það hentar þeim sem vilja kynnast starfi ævintýraleiðsögumannsins eða bæta við þekkingu sína á ævintýraferðamennsku. Það er jafnframt góður vettvangur fyrir þá sem vilja skoða möguleikann á að gera ævintýraleiðsögn að starfsframa og vilja fara í hlutfallslega stutt og hnitmiðað nám. Þá gefur leiðsögunámið nemendum möguleika á að fara í áframhaldandi háskólanám hjá TRU. Nemendur í ævintýraferðamennskunámi Keilis og TRU útskrifast með Adventure Sport Certificate skírteini.
Kennarar í náminu eru flestir íslenskir en námið er kennt á ensku. Það byggir að miklu leyti á vettvangsnámi í náttúrunni ásamt þéttri dagskrá í bóklegum fögum sem kennd verða í Keili á Ásbrú. Námið leggur áherslu á: bakpokaferðalög, gönguleiðsögn, ísklifur, jöklaferðir, fjallamennsku, flúðasiglingar, straumvatnskajak, straumvatnsbjörgun, sjókajak og skyndihjálp í óbyggðum. Fyrstu vikur námsins hafa farið fram í vettvangsnámi og þannig byrjuðu nemendur að Fjallabaki í að þétta hópinn. Síðan þá hafa þeir einnig farið í flúðasiglingar á straumvatnskajökum og voru í síðustu viku í kajaksiglingum í Breiðafirðinum. Kajakæfingar hafa einnig farið fram í sundlauginni í Sandgerði en reynt verður að nota aðstöðu á Suðurnesjum eins og hægt er í náminu.
Nánar má kynna sér námið hér!