Keflvískir bændur í nábýli við náttúruöflin
Hjónin Guðmundur Ragnarsson og Sigrún Kristjánsdóttir bjuggu lengi í Keflavík en létu gamlan draum rætast fyrir 10 árum er þau keyptu bú í Fljótshlíðinni og hófu sveitabúskap. Eins og nágrannar þeirra í Fljótshlíðinni hafa þau alltaf verið meðvituð um ógnina af því að búa í nýbýli við eldfjöllin en það er kannski bara hluti að því að vera Íslendingur í landi sem er síkvikt og enn í mótun frá náttúrunnar hendi.
Lífið gekk sinn vanagang á Núpi, býli þeirra hjóna, þegar blaðamaður Víkurfrétta leit þar við í gær. Þau sögðust ekki hafa mikilar áhyggjur af flóðahættunni þar sem þau búa það utarlega í dalnum.
„Maður hefur meiri áhyggjur af því ef vindur snýst og öskufallið kemur yfir okkur. Við höfum hingað til verið heppin með vindátt en maður er við öllu búinn. Hestarnir eru úti og maður kippir þeim inn í hús ef úti það fer. Eins þarf að gæta þess að þeir hafi nóg af fóðri og hreinu vatni. Séu ekki á beit eða drekkandi upp úr pollum. Hestarnir vita alveg hvað er í gangi. Þeir eru órólegir og horfa oft í áttina að eldgosinu. Eins sér maður að þeir hafa leitað upp á hæðir og hóla sem eru öruggari staðir við þessar kringumstæður, sagði Guðmundur.
Þess má geta að nokkrir hestamenn af Suðurnesjum freistuðu þess í gær að komast í Mýrdalinn til að ná í hross sem þeir eiga og voru úti við. Þeir urðu hins vegar frá að hverfa þar sem öskufallið svo gríðarlegt að fólk sá ekki handa sinna skil.
---
Efri mynd:
Guðmundur og Sigrún með sonunum Gabríel og Leo. Gosmökkurinn í baksýn.
Lífið gekk sinn vanagang á Núpi í gær og gengið var til búverka eins og aðra daga. Hér er verið að gefa í fjárhúsinu.
Hestur á túninu á Núpi. Ógnandi náttúruöfin í baksýn.
Ljósmyndir: elg.