Keflvíkingur í The Voice
Hjörleifur Már Jóhannsson, 34 ára Keflvíkingur, verður meðal keppenda í The Voice á Skjá einum næsta föstudagskvöld. Þátturinn verður svokallaður einvígisþáttur og verða söngvarar paraðir saman og keppa hver á móti öðrum. Hjörleifur hefur í gegnum tíðina verið trúbador og komið fram með Eiði Erni bróður sínum og kalla þeir sig Heiður. Þá tók Hjörleifur þátt í söngdagskránni Með blik í auga á Ljósanótt í Reykjanesbæ árið 2013.
Hjörleifur segir þátttökuna í The Voice vera gjörólíka því að vera trúbador þar sem allt er mun lágstemmdara. „Þetta er allt öðruvísi og sérstök lífsreynsla. Ég var nú svolítið á báðum áttum um það í upphafi hvort ég ætti að taka þátt. Mér fannst ég vera svo gamall,“ segir Hjörleifur sem ákvað svo að slá til enda var fólkið í kringum hann spennt fyrir þátttökunni.
Helgi Björns valdi Hjörleif í liðið sitt. Þátttakan í The Voice er búin að vera mögnuð upplifun að sögn Hjörleifs. „Á þessum stutta tíma er ég búinn að læra ótrúlega mikið af Helga og Stefáni Erni GUnnlaugssyni, aðstoðarþjálfara liðsins. Þeir eru miklir reynsluboltar.“
Hjörleifur vinnur hjá Airport Associates á Keflavíkurflugvelli en var áður leiðbeinandi í grunnskólum, meðal annars hjá Holtaskóla og Háaleitisskóla. Eiginkona hans heitir Linda Pálmadóttir og eiga þau tvær dætur og einn son.