Keflavíkurdóttir í úrslitum Söngvakeppninnar
Rappsveitin Reykjavíkurdætur eru eitt fimm atriða sem keppa til úrslita um hvert verði framlag Íslendinga til Eurovision sem haldið verður á Ítalíu í ár. Ein Reykjavíkurdætra er Keflavíkurdóttirin, þáttastjórnandinn, rapparinn og aktívistinn Ragnhildur Holm.
Reykjavíkurdætur var stofnuð fyrir níu árum sem vettvangur fyrir konur og kynsegin fólk til að rappa en þá var rappheimurinn algerlega einokaður af körlum. Þær segjast vera hópur ólíkra kvenna sem stækki hver aðra, valdefli og gefi orku.
Ragnhildur Holm er ein þessara mögnuðu kvenna en hún er alin upp í Keflavík. Hún fluttist til Reykjavíkur eftir að hafa lokið framhaldsnámi í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Ævi Röggu hefur heldur betur verið þyrnum stráð og hún hefur upplifað sitt lítið af hverju. Ragga er á góðum stað í dag og mun viðtal við hana birtast í næsta tölublaði Víkurfrétta.