Keflavíkurdætur útskrifast frá Hólaskóla
Það var skemmtileg tilviljun að við útskrift sl. föstudag hjá háskólanum að Hólum í Hjaltadal hittust tvær aldar upp í Keflavík, þær Camilla Petra Sigurðardóttir og Marta Eiríksdóttir. Háskólinn að Hólum býður upp á fiskeldis-og fiskalíffræðadeild, ferðamáladeild og hestafræðideild en skólann sækja bæði Íslendingar og erlendir námsmenn, mjög alþjóðlegur háskóli.
Camilla Petra lauk nú sínu öðru ári við háskólann í hestafræðideild en stefnir á að ljúka þriðja námsárinu vorið 2010 en þá hefur hún hlotið allar gráður hestafræðideildarinnar. Marta Eiríksdóttir hóf nám sl. haust við Hólaskóla og hlaut diplómagráðu frá ferðamáladeild háskólans í viðburðastjórnun. Þetta er annað árið sem háskólanám í viðburðastjórnun býðst hér á landi.
Nemendur hestafræðideildar útskrifast á hverju ári og bæta við sig gráðu í hvert sinn. Camilla Petra hefur lokið tveimur árum við skólann, hún er núna hestafræðingur og leiðbeinandi en nú hlaut hún einnig diplómagráðu í tamningum. Camilla Petra stefnir á að ljúka diplómagráðu í þjálfun og reiðkennslu að Hólum næsta vor.
---
Mynd: Marta Eiríksdóttir (tv) og Camilla Petra Sigurðardóttir.