Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Keflavík Music Festival: Opnunarkvöld - myndir
Ásgeiri Trausta var vel fagnað í Reykjaneshöllinni í gær.
Föstudagur 7. júní 2013 kl. 15:00

Keflavík Music Festival: Opnunarkvöld - myndir

Einn vinsælasti tónlistarmaður landsins um þessar mundir, Ásgeir Trausti opnaði tónlistarhátíðina Keflavík Music Festival í Reykjaneshöllinni í gær eftir tæplega tveggja tíma seinkun á dagskránni. Nokkur þúsund manns voru saman komin í höllinni sem hafði verið breytt í glæsilega tónleikahöll með tilheyrandi hljóð- og ljósabúnaði. Á eftir Ásgeiri Trausta stigu á svið danska hip-hop hljómsveitin Outlandish, en þeir höfðu lent í vandræðum með farangurinn sinn við komuna til landsins. Áhorfendur sungu með þegar vinsælasta lag sveitarinnar, Aisha var spilað, en það naut mikilla vinsælla á Íslandi fyrir nokkrum árum.

Rudimental stigu næst á svið og rifu upp enn meiri stemningu með kröftugri sviðsframkomu. Breska sveitin steig fyrst fram á sjónarsviðið árið 2011 og hafa náð nokkrum vinsældum með lögum á borð við Feel The Love, Not Giving In og Waiting All Night. Að lokum var komið að áströlsku indie sveitinni The Temper Trap, en dagskrá í Reykjaneshöllinni lauk ekki fyrr en um 01:30.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í miðbæ Keflavíkur komu fram tónlistarmenn og hljómsveitir á borð við Ojba Rasta, Skálmöld, Pétur Ben og Védís Hervör, en nokkrar hljómsveitir hættu við að koma fram á síðustu stundu vegna þess að skipuleggjendur hátíðarinnar höfðu að þeirra sögn ekki gengið frá greiðslum eins og um hafði verið samið.

Páll Óskar og Monika komu fram í Keflavíkurkirkju eins og sjá má í annarri frétt á vf.is.

Dagskrá hátíðarinnar næstu tveggja daga er þéttskipuð og í kvöld koma meðal annars fram Hjálmar, Agent Fresco, Emmsjé Gauti og bandaríska sveitin Far East Movement.

Myndir frá opnunarkvöldinu má sjá í ljósmyndasafni VF.

 

Ásgeir Trausti var flottur á sviðinu í Reykjaneshöllinni.

Hip-hop sveitin Outlandish steig á svið á eftir Ásgeiri Trausta.

Krakkarnir í Rudimental náðu upp hörku stemningu meðal áhorfenda.

Stemning í Reykjaneshöllinni.

Rokkararnir í Skálmöld náðu vel til tónleikagesta í Tuborg tjaldinu.

VF-myndir/ Jón Árni og Páll Orri.