Keflavík Music Festival: Dagur 2 - myndir
Tónlistarhátíðin Keflavík Music Festival hélt áfram í gær með fjölmörgum tónleikum um allan bæ. Þar á meðal voru Hjálmar, Jón Jónsson, Far East Movement, Úlfur Úlfur, Dimma og Sólstafir svo fátt eitt sé nefnt. Hér má sjá myndir frá því í gærkvöldi og nótt.
Eins og fyrri daginn var seinkun á dagskránni í Reykjaneshöllinni, en hátíðargestir létu það alls ekki á sig fá og var ótrúleg stemning í loftinu, en ein hljómsveit afboðaði komu sína í höllina. Reggíhljómsveitin landsþekkta, Hjálmar, opnaði kvöldið og stóð að vanda fyrir sínu með flottri framkomu. Á eftir þeim kom tónlistarmaðurinn Jón Jónsson og spilaði lög af plötunni sinni, Wait For Fait, ásamt tveimur nýrri lögum.
Þá næst steig á svið hinn litskrúðugi Haffi Haff og vantaði ekki kraftinn og fjörið hjá honum. Hip-hop sveitin Úlfur Úlfur kom þar á eftir ásamt rapparanum Emmsjé Gauta sem slóst óvænt í för með þeim á sviðinu og gerði allt vitlaust. Ekkert minna dugði en að dýfa sér út í áhorfendahópinn þar sem hann lét margar hendur aðdáenda bera sig á milli áður en hann fór aftur upp á sviðið. Auk Emmsjé Gauta mætti trommarinn hárprúði, Hrafnkell Örn Guðjónsson, úr hljómsveitinni Agent Fresco og spilaði með Úlfi Úlf.
Ekki linnti látunum þegar bandaríska hljómsveitin Far East Movement steig á svið í fagurhvítum samfestingum. Sveitin leggur greinilega mikið upp úr því að ná vel til áhorfenda enda var stemningin gríðarleg og náði hátindi þegar lögin „Like A G6,“ „Rocketeer“ og „Live My Life“ voru spiluð, en þess má geta að söngvarinn heimsþekkti, Justin Bieber syngur með sveitinni í síðast nefnda laginu. Hljómsveitin Far East Movement hefur farið á tónleikaferðalög með ekki óþekktari listamönnum en Rihönnu, Calvin Harris og Lil Wayne.
Eftir að dagskrá í Reykjaneshöllinni lauk héldu margir leið sína í miðbæinn á tónleika ýmist á skemmtistöðunum Center, Manhattan, Ránni og Kaffi Duus eða í tjöldunum tveimur sem sett hafa verið upp við Hafnargötu. Mikið líf var í bænum og fjöldi fólks komið til Reykjanesbæjar frá öðrum bæjarfélögum til að upplifa hátíðina sem haldin er nú í annað sinn.
Lokakvöld hátíðarinnar er í kvöld og stíga meðal annars á stokk hljómsveitirnar Valdimar, XXX Rottweiler hundar, Sísí Ey, Chase & Status, Mammút og Sykur auk rapparanna Iggy Azalea, Tinie Tempah og plötusnúðsins Nicky Romero. Hér er þó aðeins um að ræða brot af þeim tónlistarmönnum sem munu koma fram í kvöld, svo búast má við miklu lífi í bænum.
MYNDASAFN HÉR
Hjálmar opnuðu kvöldið með fögrum reggítónum.
Far East Movement trylltu lýðinn með kröftugri framkomu.
Emmsjé Gauti „crowd-surfaði“ yfir aðdáendur.
Gríðarleg stemning ríkti í Reykjaneshöllinni.
VF-myndir/ POP, HBP, JÁB, ÓAM