Karnivalstemmning á opnum fjölskyldudegi að Ásbrú
Opinn dagur að Ásbrú verður haldinn hátíðlegur eftir viku eða á sumardaginn fyrsta. Umfangsmikil dagskrá verður í tilefni dagsins þar sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og Keilir - miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs hafa tekið höndum saman með fjölmörgum öðrum fyrirtækjum sem starfa á Ásbrú um að gera fróðlegan og ekki síst skemmtilegan dag fyrir alla fjölskylduna á sumardaginn fyrsta.
Þetta er í þriðja sinn sem fjölskylduhátíðin er haldin. Á fjölskylduhátíðinni í fyrra mættu um fimmtán þúsund manns og skemmtu sér konunglega í hreint út sagt frábæru veðri.
Að þessu sinni verður dagskráin enn fjölbreyttari en í fyrra og sérstök athygli verður sett á yngstu kynslóðina.
Fyrirtæki á Ásbrú kynna sig og verkefni sín. Keilir - miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs mun kynna námsframboð sitt. Í íþróttahúsinu að Ásbrú munu ÍAK einkaþjálfarar veita ráðleggingar um heilsu og hreyfingu.
Boðið verður upp á rútuferðir um svæðið þar sem farið verður yfir sögu svæðisins og núverandi uppbyggingu.
Risa Karnival fyrir börnin með leiktækjum og fjölda skemmtiatriða. Fjölskylduratleikur verður um svæðið og verðlaun í boði. Þá verður stærsti slökkvibíll landsins til sýnis. Boðið verður upp á þyrluflug, svo framarlega að þyrlur verði tiltækar, en síðustu daga hafa þær verið við gosstöðvarnar á Eyjafjallajökli og Fimmvörðuhálsi.
Íbúðir Keilis verða til sýnis fyrir þá sem hafa áhuga á að flytja að Ásbrú. Á Top of the Rock verður mótorhjólasýning og gítarsýning.
Nánar verður fjallað um dagskránna á vf.is þegar nær dregur viðburðinum og í næstu viku verður ítarlega fjallað um dagskrá hátíðarinnar hér í Víkurfréttum.