Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Karnivalstemmning á opnum degi á Ásbrú á morgun
Miðvikudagur 18. apríl 2012 kl. 10:22

Karnivalstemmning á opnum degi á Ásbrú á morgun

Þórdís Þórhallsdóttir er verkefnastjóri Opna dagsins á Ásbrú sem haldinn verður sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 19. apríl kl. 13-16. Hún segir undirbúninginn fyrir hátíðina hafa verið smá strembinn en mjög skemmtilegan.


„Við erum búin að undirbúa þetta gamla góða ameríska karnival hér í kvikmyndaverinu á Ásbrú annars vegar og hins vegar fræðilega og rólegheita stemmningu í Keili. Þar ætlar NASA, geimferðastofnun Bandaríkjanna m.a. að vera með fyrirlestur, Klassart mun spila, boðið verður upp á námskynningar og gestir geta tekið próf hjá einkaþjálfurum,“ segir Þórdís við Ásbrúarblaðið.


Það verða ekki alveg sömu rólegheitin í kvikmyndaverinu.


„Þar verður stuð og fjör fyrir krakka á öllum aldri og amerískt karnival eins og það gerist best. Pollapönk mun spila og BRYN Ballett Akademían hér á Ásbrú mun vera með sýningar. Þá mun fimleikadeild Keflavíkur vera með klappstýruatriði og jafnvel eitthvað fleira óvænt.,“ segir Þórdís.


Gamla góða karnival-bása stemmningin eins og var á karnivali Varnarliðsins hér áður verður ríkjandi með draugahúsi í umsjón unglinga úr Reykjanesbæ, leiktækjum, leikja- og sölubásum, og kynningarbásum flottra fyrirtækja og listamanna hér á Ásbrú.


„Þetta verður alveg svakalega flott. Við ætlum að leggja áherslu á fyrirtækin hér á Ásbrú og listamenn. Þá verða félagasamtök úr Reykjanesbæ áberandi. Við buðum þeim að taka þátt í opna deginum með okkur með að setja upp bása með ýmis konar leikjum og þrautum ásamt söluvarningi sem verður seldur á vægu verði“.


Þórdís hvetur fólk til að mæta tímanlega. Pollapönk byrjar að spila kl. 13 í kvikmyndaverinu og NASA byrjar fyrirlestur sinn á sama tíma í Keili. Ókeypis verður í hoppukastala og andlitsmálningu.


Hundaeigendur eru minntir á að hundar eru ekki leyfðir á svæðinu og því vinsamleg tilmæli að skilja hundana sína eftir heima.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024