Kaffihúsamessa í Kirkjulundi
Á föstudagskvöld verður haldin svokölluð kaffihúsamessa í Kirkjulundi, safnaðarheimili Keflavíkurkirkju. Þar kemur fram 20 manna hópur frá Landakirkju í Vestmannaeyjum og mun flytja velþekkt dægurlög í útsetningu hópsins. Hópurinn hefur sungið saman í tvö ár og er stjórnandi hans Ósvaldur Freyr Guðjónsson tónlistarkennari í Vestmannaeyjum.
„Þetta verður ofboðslega skemmtilegt kvöld þar sem tónlistin verður í hávegum höfð. Það verður notaleg kertaljósastemmning,“ segir Ósvaldur en hann leikur einnig undir á píanó og Páll Viðar Kristinsson leikur á Hammond orgel.
Kaffihúsamessan hefst klukkan 22:30. Húsið opnar klukkan 22:00 og er aðgangur ókeypis.
Myndin: Hópurinn frá Vestmannaeyjum sem mun syngja á kaffihúsamessunni í Kirkjulundi á föstudag.