Kaffihús með sérstöðu og sál
Kaffihúsið Bryggjan var stofnað árið 2009 er þeir bræður Aðalgeir og Kristinn Jóhannssynir fundu fyrir samdrætti á netaverkstæði sínu sem er til húsa í sömu byggingu og hýsir nú kaffihúsið vinsæla við höfnina í Grindavík.
„Við höfðum upphaflega nóg að gera með okkar netaverkstæði sem var hér til húsa. Síðan hefur orðið breyting á sjávarútveginum hérna í Grindavík og eru nánast allir okkar kúnnar farnir héðan burt. Verkefnastaðan hjá okkur minnkaði og því varð að reyna að finna upp á einhverju nýju að gera,“ segir Kristinn er hann sest niður með blaðamanni Víkurfrétta.
Kristinn segir að þeir bræður hafi orðið varir við það að ferðamönnum væri sífellt að fjölga í Grindavík og staðsetningin á húsnæðinu hafi talist góð til þess að reka kaffihús. „Það var ekkert svona í Grindavík og okkur datt í hug að láta reyna á þetta. Við vissum ekkert hvað kaffihús snerust um, og vitum það kannski ekki enn,“ segir Kristinn en hann segir það hafa verið haft að leiðarljósi að koma með eitthvað svona nýtt og spennandi í heimabyggðina, stað sem fólk gæti komið á og fengið sér kaffi og kökur.
Meira er gert en að selja kaffi og blómstar menning í kaffihúsinu við höfnina. Þarna er flutt tónlist og horft á fótbolta og svo hafa farið þarna fram skemmtilegar umræður sem kallast milliliðalaust á Bryggjunni. „Þetta snýst um það að þá koma hér aðilar og ræða ýmis málefni. Hér hafa t.d. allir bæjarfulltrúar komið og svarað spurningum bæjarbúa,“ en þessar umræður fara alltaf fram á miðvikudagsmorgnum. Kristinn segir að þar skapist sérstakt návígi við þá aðila sem sitja fyrir svörum en þar á meðal hafa verið þingmenn og ráðherrar. „Menn eru ófeimnir við að spyrja og allt er leyfilegt, svo lengi sem það sé innan þess ramma sem menn kalla mannasiði,“ segir Kristinn. Hann segir spurningarnar oft vera hvassar og stundum sé tekist á svo úr verður lífleg morgunstund.
Andrúmsloftið hjá þeim bræðrum er frekar frjálslegt og er bæjarbúum frjálst að koma með ljósmyndir og aðra muni til þess að hengja upp á veggina. Þannig er saga Grindavíkur að einhverju leyti skráð á veggi Bryggjunnar en einnig er þar athuglisverð tafla með ýmsum merkum nöfnum. Þar getur að líta aflakónga Grindavíkur frá árinu 1945 til ársins 1984, það var árið þegar kvótakerfið kom á, en áður kepptust menn um að veiða sem mest og var mikill heiður að verða aflakóngur. Geta þeir bræður þulið upp sögu hvers og eins aflakóngs og söguna bak við mennina og bátana ef gestir óska þess.
Alltaf er boðið upp á súpu í hádeginu og er humarsúpan á staðnum sérstaklega vinsæl. Það er virkilega heimilislegt um að litast á kaffihúsinu og ekki skemmir útsýnið fyrir en þar blasir höfnin við í öllu sínu veldi. Kristinn segir erlenda ferðamenn sérstaklega hrifna af því að sitja þarna og fylgjast með lífinu við höfnina enda ekki mörg kaffihúsin í heiminum sem státa af svona umhverfi.