Jón Ólafur með dauðann á hælunum í nýrri barnabók
Önnur bókin um hinn keflvíska Jón Ólaf jólasvein er komin út og nú færist fjör í leikinn, segir Kristlaug María Sigurðardóttir, Kikka, höfundur bókanna um Jón Ólaf. Bókin ber undirtitilinn „með dauðann á hælunum!“ og ekki að ástæðulausu því í sögunni er framið morð. Kikka segir söguna bannaða börnum yngri en átta ára en bókin er skrifuð fyrir börn á aldrinum 8-12 ára.
Jón Ólafur býr í Keflavík og sögusviðið er Reykjanesbær, Norðurpóllinn og fiskmarkaður í Japan. Þessi nýja bók er sjálfstætt framhald af fyrri bókinni um kappann. Kikka áréttar að þó svo lesendur hafi ekki lesið fyrri söguna, þá komast þeir auðveldlega inn í þessa. Kikka mælir þó með að lesendur lesi báðar bækurnar en fyrri bókina verður hægt að fá á föstudaginn í sérstöku útgáfupartýi Jóns Ólafs jólasveins í verslun Eymundsson í Reykjanesbæ. Þá fylgir gamla bókin ókeypis með þeirri nýju og tilboðið mun gilda í einhverja daga. Þá verður líka boðið upp á veitingar fyrir krakka í útgáfupartýinu og öllum boðið.
Framhald verður á sögunni um Jón Ólaf en Kikka á von á því að bækurnar verði a.m.k. fimm áður en yfir lýkur.