Jón Jónsson kom FS-ingum á óvart
- tók lagið í íslenskutíma. Heldur tónleika í Hljómahöll
Tónlistarmaðurinn Jón Jónsson kom nemendum í íslenskutíma í Fjölbrautaskóla Suðurnesja á óvart í gær þegar hann leit við inn í tíma og tók lagið. Jón heldur tónleika í Hljómahöllinni á föstudag og fór inn í íslenskutímann til að ná einnig tali af Páli Orra Pálssyni, nemanda og fréttamanni Víkurfrétta.
Þeir félagar ræddu saman á stórtónleikum í Keflavík fyrir fjórum árum síðan en þá var Páll 14 ára og mundaði hann hljóðnemann á Keflavík Music Festival en þar kom Jón fram með hljómsveit sinni.
„Má ég fá hann lánaðan í nokkrar mínútur. Við þurfum aðeins að ræða saman,“ sagði Jón og fékk leyfi hjá kennaranum til að spjalla við fréttamanninn og FS-nemandann.
Þeir félagar fóru fram og Páll Orri tók nýtt viðtal við Jón sem við sýnum í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta, vikulegum sjónvarpsþætti á vf.is og sjónvarpstöðinni Hringbraut. Að neðan má sjá viðalið við fréttamaðurinn ungi tók við tónlistarstjörnuna fyrir 4 árum.
Páll Orri ræðir við Jón Jónsson á tónlistarhátíð í Keflavík árið 2013. Að neðan ræðir hann við kappann í húsakynnum FS í vikunni.