Jón Böðvarsson með námskeið um Grindavíkurstríðið
Jón Böðvarsson mun í mars vera með námskeið um Grindavíkurstríðið í Saltfisksetrinu í Grindavík í samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Á námskeiðinu verður rakin langvinn verslunarsamkeppni milli Englendinga og þjóðverja hérlendis á 16. öld. Oft urðu átök í langvinnri verslunarsamkeppni milli Englendinga og Þjóðverja og léku Englendingar áhafnir þýskra kaupskipa oft grátt. Þjóðverjar réttu hlut sinn eftirminnilega árið 1532 fyrst í sjóorrustu við Básenda 2. apríl og gjörsigruðu síðan keppinauta sína í svonefndu Grindarvíkurstríði í júnímánuði - með aðstoð Hafnfirðinga og Njarðvíkinga
Árásarlið Þjóðverja lagði undir sig virki á Járngerðarstöðum, drap þar 15 Englendinga og náði á sitt vald ensku skipi sem lá í höfn. Fjórum öðrum skipum tókst að leggja frá landi. Eitt strandaði og fórst með allri áhöfn en hin komust til Englands. Í kjölfar harðra deilna sem risu af þessum sökum var efnt til sáttarfundar í Segeberg skammt frá Lubeck 15. – 17. febrúar 1533 sem lauk með friðarsamningi. Rakin verður atburðarrás þessi sem reyndist Íslendingum örlagarík er fram liðu stundir.
Leiðbeinandi: Jón Böðvarsson
Tími: 3. 10. 17. og 24. mars kl. 20:00 – 22:00
Verð: kr. 16.000
Samstarfsaðili: Saltfisksetrið í Grindavík