Jólin koma með jólasýningu Fimleikadeildar Keflavíkur
Jólin mín: Jane Petra Gunnarsdóttir
Jane Petra Gunnarsdóttir býr í Montreal í Kanada ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum. Þau ætla að dvelja á Íslandi yfir jólin, enda getur Jane Petra ekki hugsað sér jólin í útlöndum fjarri fjölskyldu og vinum.
Jólabíómyndin sem kemur þér í jólaskapið?
Engin ein sérstök en það er mjög notalegt að eiga kósýkvöld með börnunum og horfa á jólamynd í desember. Við reynum að hafa svona kósýkvöld tvisvar til þrisvar sinnum fyrir aðfangadag.
Sendir þú jólakort eða hefur facebook tekið yfir?
Í fyrra gafst enginn tími til að græja jólakort því við vorum að undirbúa flutninga til Montreal, sendum þess vegna facebook-jólakort. Það verður sko ekki gert aftur, mér finnst svo gaman að senda og fá jólakort.
Ertu vanaföst um jólin, er eitthvað sem þú gerir alltaf um hátíðarnar?
Já, ég er mjög vanaföst. Ég mæti í fullt af jólaboðum svona eins og flestir gera og nýt þess að vera með fjölskyldunni. Síðan um jólin 2001 hef ég og þrjár vinkonur mínar úr Íþróttakennaraskólanum og makar verið með jólamatarboð.Það sem er svo frábært við þetta matarboð, fyrir utan hvað það er alltaf gaman hjá okkur, er að þetta er ekkert stress því við hjálpumst að með veitingarnar þannig að þetta lendir ekki allt á hjónunum sem bjóða heim til sín.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Það eru tvær gjafir sem standa uppúr; aðfangadagskvöldið 1997 voru tveir hringar í jólapakkanum frá Ella mínum og þá trúlofuðum við okkur og svo er það KitchenAid hrærivélin sem ég fékk líka frá Ella. Ég sakna þess einmitt mjög mikið að hafa ekki hrærivélina hjá mér hér í Montreal, elska að nota hana þegar ég baka.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Hamborgarhryggur og meðlæti.
Hvenær eru jólin komin fyrir þér?
Fyrir mér byrja jólin þegar ég fer á jólasýningu hjá Fimleikadeild Keflavíkur. Síðastliðin 30 ár hef ég tekið þátt sem iðkandi, þjálfari eða áhorfandi. Ég er svo glöð að ég verð komin til Íslands rétt fyrir jólasýninguna þetta árið.
Hefur þú verið eða gætir þú hugsað þér að vera erlendis um jólin?
Ég hef aldrei verið erlendis yfir jólin og gæti ekki hugsað mér það þrátt fyrir að hafa búið á Flórída í þrjú ár og svo núna búum við í Montreal. Ég vil bara vera með fjölskyldunni minni og vinum yfir hátíðirnar.
Áttu þér uppáhalds jólaskraut?
Ó já, hvít keramik jólatré sem ég keypti í Minneapolis þegar ég var í vinnuferð með starfsfólki Heiðarskóla haustið 2005.
Hvernig verð þú jóladegi?
Ég fer alltaf í fjölmennt jólaboð með stórfjölskyldunni hennar Gunnu ömmu. Þar er spilað spil sem heitir púkk og þar alltaf mikið stuð. Svo er farið í hangikjöt hjá tengdó eða hjá foreldrum mínum.