Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jólin koma… eða hvað?
Jólin nálgast, skreytingar ljóma í görðum og Leikfélag Kefglavíkur setur upp jólasöngleik.
Mánudagur 26. nóvember 2012 kl. 02:09

Jólin koma… eða hvað?

Laugardaginn 1. desember frumsýnir Leikfélag Keflavíkur jólasöngleikinn Jólin koma… eða hvað?  Verkið er samið af leikfélagsdrengjunum Arnóri Sindra og Jóni Bjarna sem báðir hafa starfað með félaginu í langan tíma.

Það eru um 50 manns sem koma að uppsetningunni með einum eða öðrum hætti og óhætt er að lofa góðri skemmtun. Unglingadeild félagsins hefur verið afar öflug undir stjórn þeirra félaga Arnórs og Jóns Bjarna en einnig eru aðrir eldri og reyndari leikarar að taka þátt.

Verkið fjallar að sjálfsögðu um jólin og ýmislegt í kringum þau með óvæntum uppákomum og fjöri auk þess sem vinsæl og þekkt jólalög óma inni á milli atriða í flutningi frábærra söngvara sem félagið er svo heppið að hafa innanborðs.

„Þetta er búin að vera strembin vinna en jafnframt ótrúlega skemmtileg enda verkið gott þó við segjum sjálfir frá“ sögðu höfundarnir sem jafnframt sjá um leikstjórnina.

„Hópurinn er góður og allir mjög áhugasamir, valinn maður í hverju hlutverki og allt að smella saman.  Svo er bara að vona að fólk leggi leið sína í Frumleikhúsið og njóti sýningarinnar í hlýju umhverfi á meðan það bíður eftir jólunum“

Verkið verður sem fyrr sagði frumsýnt laugardaginn 1. desember, kl. 20:00. Önnur sýning verður sunnudaginn 2. des., kl. 20:00. Nánar auglýst í næsta tölublaði VF.

Sérstakt tilboð verður í gangi fyrir skólahópa/leikskólahópa og því stórsniðugt fyrir bekkjarfulltrúa og/eða nemendafélög að skella sér á flotta jólasýningu með nemendur og  taka aðra fjölskyldumeðlimi með þar sem þetta er sannkölluð fjölskylduskemmtun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024