Jólatónleikar í Grindavíkurkirkju á föstudagskvöld
Föstudagskvöldið 19. desember kl. 20 verður efnt til fjölbreyttrar jólatónleikadagskár í Grindavíkurkirkju.
Óhætt er að segja að öllu verði tjaldað til á þessum veglegu jólatónleikum kirkjunnar, en þar munu koma fram: Kór Grindavíkurkirkju, Barnakór Grindavíkurkirkju, Kvennakór Tónlistarskólans. Auk þess munu nokkrir einstaklingar úr kórunum syngja einsöng við undirleik úrvals hljóðfæraleikara. Einsöngvari með kórnum er Sylvía Rún Emilsdóttir.
Dagskrá tónleikanna byggist upp á hefðbundinni íslenskri jóla kórtónlist auk þess sem Kór Grindavíkurkirkju tekst á við mjög skemmtilega jóla gospel-syrpu. Af því tilefni höfum við fengið til liðs við okkur einvalalið tónlistarmanna þá, Þórð Guðmundsson bassaleikara, Ara Einarsson gítarleikara, Baldur Orra Rafnsson trommuleikara og Hafþór Guðmundsson á slagverk.
Í haust var settur á laggirnar stúlknakór Grindavíkurkirkju, hefur það starf farið mjög ánægjulega af stað og kórinn nú þegar komið fram við ýmis tilefni. Það er því mjög gaman að geta telft kórnum fram á þessum fyrstu jólatónleikum hans.
Það er von okkar að sem flestir geti séð sér fært um að mæta og notið þessarar fjöllbreyttu dagskrár rétt í aðdraganda jólanna.
Stjórnandi á tónleikunum er Tómas Guðni Eggertsson organisti Grindavíkurkirkju.
Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.