Jólaljós, fullveldisdagurinn og dagur íslenskrar tónlistar
Jólaljósin í Suðurnesjabær voru tendruð á stærstu jólatrjánum í Sandgerði og Garði 1. desember. Brugðið var út af vananum á þessum óvenjulegu og skrýtnu tímum en upphaflegu áætlanirnar gerðu ráð fyrir því að íbúar söfnuðust saman við trén og gerðu sér glaðan eftirmiðdag við leik og söng. Þá var einnig áætlað að halda upp á fullveldisdaginn með sérstakri dagskrá.
Arnar Snær Helgason úr Sandgerðisskóla og Stefanía Líf Birkisdóttir úr Gerðaskóla tendruðu ljósin á jólatrjánum með Magnúsi Stefánssyni en ljósin voru tendruð klukkan 8:20 í Sandgerði og klukkan 9.00 í Garði. Nemendur 1.–7. bekkja beggja skóla fengu að taka þátt í skemmtuninni en eins og reglur segja til um mega þessir nemendur hittast og blandast saman. Þrátt fyrir það var gætt að öllum sóttvörnum og hélt hver bekkur sig saman og átti sitt svæði til að standa á. Allir nemendur stóðu sig með stakri prýði.
Sama dag var einnig degi íslenskrar tónlistar fagnað og því þótti við hæfi að fá bræðurna Jón Jónsson og Friðrik Dór í heimsókn en þeir mættu galvaskir á svæðið og tóku nokkur lög við mikinn fögnuð viðstaddra sem tóku vel undir með þeim. Um var að ræða skemmtilega stund á skrýtnum tímum, segir á heimasíðu Suðurnesjabæjar.