Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 16. desember 1999 kl. 23:38

JÓLAKAKAN Í UPPÁHALDI

Árni Jónsson er Njarðvíkingur en hann fæddist 19. nóvember árið 1909. Faðir hans var Jón Bergsteinsson frá Þinghóli og móðir hans hét Björg Magnúsdóttir, ættuð úr Vestmannaeyjum. Faðir Árna drukknaði þegar Árni var lítill og móðir hans fór með hann 8 ára gamlan suður í Hafnarfjörð þar sem hún fór til að vinna í fiski. Árni flæktist með henni suður en systkini hans voru alin upp annars staðar. „Hjónin Helgi Ásbjörnsson og Jórunn Jónsdóttir tóku mig að sér þegar ég var átta ára og ég ólst upp í húsinu Njarðvík í Innri-Njarðvík. Í dag er það safnhús. Ásbjörn Ólafsson, faðir Helga fóstra míns, var hvatamaður að því að láta byggja kirkjuna í Innri-Njarðvík. Grjótið í hana var dregið úr Kirkjuvík, fyrir neðan kirkjuna“, segir Árni. Hangikjöt og kertaljós „Það voru engin jól, þó hlakkaði mann til. Þá voru kerti sett útí gluggana, svona barnakerti, þessi snúnu. Ég var látin passa uppá kertin, fara í gluggana og gá hvort ekki væri allt í lagi“, segir Árni en fólk skemmti sér við að spila púkk. Þó að jólin hafi ekki verið viðamikil þá var alltaf allt þrifið hátt og lágt fyrir aðfangadag og lagt var upp úr því að hafa betri mat en venjulega yfir hátíðarnar. „Við fengum hangikjöt og steikt kjöt en engin sætindi. Ég man þó eftir því að bökuð var jólakaka og ég er ennþá voðalega hrifinn af henni. Hún var bökuð í stórum formum. Ég var eina barn fósturforeldra minna og fékk alltaf að skera raustann af kökunni. Sælgætið var bræddur strausykur Árni segir að hann muni ekki neinum jólagjöfum og að hann hafi ekki alltaf fengið föt fyrir jólin. „Ég man eftir skömmtuninni í fyrri heimstyrjöldinni. Þá var náð í strausykur, hann var bræddur, síðan klippt sundur í mola. Þetta var okkar sælgæti“, segir Árni. Jólin hans Árna voru einföld en jólatréð var á sínum stað. „Einar og Sigurlaug í Hákoti áttu nokkur börn og þar var alltaf jólatré. Það var spýta á fæti og í hana var stungið litlum spýtum sem kertin voru sett á. Svo var farið í heiðina og týnt lyng til að setja á tréð. Það var alltaf voðalega gaman“,segir Árni. Fyrr var oft í koti kátt Árni á líka góðar minningar frá Tjarnarkoti þar sem hann lék sér gjarnan við börnin á bænum. „Hjónin í Tjarnarkoti, Finnbogi Guðmundsson og Þorkelína Jónsdóttir, voru mér svo góð og þau leyfðu okkur að leika okkur eins og við vildum. Við fórum í málsháttaleiki og dönsuðum og skemmtum okkur vel. Á seinni árum finnst mér skrýtið að við höfum mátt leika okkur þarna því það var náttúrulega hávaði af þessu“, segir Árni. Árni segist ekki finna fyrir neinni tilhlökkun í dag. „Ég er búin að setja ljós í gluggana og það er allt sem ég er búinn að gera. Ég veit ekki enn hvar ég verð um jólin en ég verð sennilega á jólunum hjá annarri dóttur minni og á gamlárskvöld hjá hinni.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024