Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 16. desember 1998 kl. 22:53

JÓLAHUGVEKJA, LÍFIÐ Í TUSKUM

Fæddi María þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. (Lúk. 2.7). En það ber til um þessar mundir að boð kemur um að nóttin skuli klædd í seríur, enda er sólin aldrei syfjaðri en einmitt nú. Jólin eru að koma! Enginn tími ársins heillar börnin jafn mikið. Jafnvel sumarið á ekki séns í jólin. Kerti, smákökur, skraut, setjaskóinnútíglugga, jesúbarnið, glimmer, englar, jólasveinar og síðast en ekki síst jólagjafir. Allt í einu! Enginn tími ársins laðar betur fram barnið í fullorðnum. Mestu fól reyna jafnvel að sýna (ekki) sitt rétta andlit og þau breytast í gleðigjafa á þessum tíma gleði og gjafa. Ég tala um gleði og gjafir því hvernig sem á það er litið snúast jólin um að gefa og að gleðjast og að þiggja og að gleðjast. Við gleðjumst yfir því að gleðja aðra og öfugt. En hversvegna gefum við hvort öðru gjafir á jólum? Vegna þess að jólin eru afmælisveisla. Við minnumst þess að Jesús, sonur Guðs, fæddist í heim manna. Jólin eru afmælisveisla frelsarans. „Allt það sem þér gjörið einum minna minnstu bræðra gjörið þér mér”, sagði Jesús. Það þýðir að með því að gleðja hvort annað gleðjum við hann. Á jólunum er allt með hátíðarbrag og gjafirnar fara meira að segja í jólaföt. Jólaföt gjafanna eru úr pappír. Þau eru til í öllum regnbogans litum og oftar en ekki með myndum. Eiginlega má segja að gjafir verði ekki jólagjafir fyrr en þær eru komnar í þannig föt. Jólin eru meira en afmælisveisla. Þá fagna kristnir menn því að svo elskaði Guð heiminn að hann fæddist sem lítið barn til að vera bróðir og frelsari allra manna. Guð kom til að taka á sig syndir okkar og gefa eilíft líf. Þannig urðu jólin til. En þegar jólin urðu til var enginn jólapappír. María vafði barnið reifum. Í þá daga var alvanalegt að búið væri um nýfædd börn þannig. Þau voru lögð á ferkantað klæði en í tvö horn klæðisins voru saumuð löng bindi (ekki ósvipuð sárabindum). Bindin voru vafin, eiginlega reyrð fast utan um börnin, hring eftir hring. Lífgjöf allra manna var pakkað í tuskur. Jesúbarnið fæddist í útihúsum í Betlehem og þar var það nýfætt, lagt í jötu, matarílát fyrir skepnur. Frelsari heimsins, sá sem gefið er allt vald á himni og á jörðu, kom allslaus í heiminn en þar var ekkert pláss. Og hann óx og dafnaði, fullkominn maður og fullkominn Guð, en aldrei átti heimurinn stað fyrir konung lífsins nema á krossinum. Ríki hans er í þessum heimi, en ekki af þessum heimi. Það teygir sig um hann allan og er án landamæra. Nú á aðventunni knýr hann hógværlega á hjörtu okkar allra, þar er ríki hans. Þiggjum LÍFIÐ í tuskum að gjöf um jólin. Guðmundur Karl Brynjarsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024